English Danish Russian Thai Polish

Spurt og svarað

| 12 ára stelpa | Vinir og félagslíf

Vinkonuvandamál

Ég á vinkonu sem á aðra vinkonu, eða í raun ekki vinkona heldur svona stelpa sem hangir utan í henni allan daginn, og ef ég ætla að reyna að tala við hana þá segir hún alltaf „komdu“ og dregur hana í burtu. Hvað á ég að gera? Þessi stelpa er einu ári eldri en ég.

Komdu sæl

Það er leitt að heyra hvernig þessi stúlka kemur fram við þig. Þú ættir kannski að ræða við vinkonu þína í einrúmi um þetta, segja henni hvað þér finnst það leiðinlegt að hún láti þessa stelpu draga sig í burtu þegar þú vilt tala við hana. Kannski gerir hún sér ekki grein fyrir því að það særir þig þegar hún kemur svona fram við þig. Hún getur þá brugðist við á annan hátt næst þegar að þetta kemur upp.

Ef þetta breytist ekki og þér líður illa vegna framkomu vinkonu þinnar er mikilvægt að þú ræðir málin við foreldra þína og við umsjónarkennarann þinn í skólanum.

Gangi þér vel.

Kær kveðja frá umboðsmanni barna