English Danish Russian Thai Polish

Spurt og svarað

| 14 ára stelpa | Vinir og félagslíf

Einmanna í útlöndum

Hæ ég bý ekki á íslandi en er þó íslensk, ég er búin að vera hérna í í 4-5 mánuði og mér gengur ekki alltof vel í skóla þar sem engin talar við mig.  Ég er ekki lögð í einelti en það hunsa mig allir. Er það mér að kenna? Og hef ég réttindi til að fá að flytja til ættingja minna á íslandi ef ég eignast ekki vini?

Fjölskylda mín er svaka góð og við erum mörg hérna en samt er ég svakalega einmana og oft get ég ekki hamið mig og læt það bitna á mömmu mini hvað ég er bitur og einmana.  Mamma segir að allir hafi gefið upp samþykki sitt að flytja hingað en þá vissi ég ekki að það yrði svona. Ætti ég að gefa þessu tækifæri?  Ég bið um svar því ég er ráðvillt.  Takk

Komdu sæl

Fyrstu mánuðirnir á nýjum stað eru oft erfiðir og það tekur alltaf tíma að aðlagast nýjum skóla og eignast félaga. Þú ættir endilega að gefa þér lengri tíma til að komast inn í hlutina. E.t.v. er einhvers konar námsráðgjafi eða félagsráðgjafi í skólanum þínum sem gæti hugsanlega aðstoðað þig við að eignast félaga eða að finna þér eitthvert frístundastarf þar sem auðveldara er að kynnast öðrum krökkum. 

Samkvæmt lögum ákveða foreldrar barna búsetustað þeirra. Þú getur því ekki flutt til ættingja þinna á Íslandi nema með leyfi þeirra.  Lögin segja líka að hafa skuli samráð við börn eftir því sem þau hafa aldur og þroska til og að foreldrar eigi að taka réttmætt tillit til skoðana barnanna þó að foreldrarnir eigi samt alltaf lokaorðið þegar mikilvægar ákvarðanir eru teknar. Þessu hafa foreldrar þínir greinilega farið eftir og er það vel.

Umboðsmaður mælir þó með að þú setjist niður með mömmu þinni og ræðir málin. Það er ekkert víst að hún geri sér grein fyrir því hversu illa þér líður. Hún hlýtur að geta hjálpað þér og gefið þér góð ráð til að falla betur inn í hópinn í skólanum.

Með von um að ástandið fari að batna.

Kær kveðja frá umboðsmanni barna