English Danish Russian Thai Polish

Spurt og svarað

| 13 ára stelpa | Vinir og félagslíf

Vinkona mín vill ekki sjá mig - líður illa

Hæj kæri umboðsmaður barna. Ég lenti í rifrildi við bestu vinkonu mína sem að er búið að standa í næstum heilt ár. Ég þori hreinlega ekki að fara´til hennar og biðja hana afsökunar það virkar ekki að senda henni sms né hringja. Ég vil svo mikið að hún verði vinkona mín aftur.

Hún og ég eigum svo mörg leyndarmál saman, hún er byrjuð að leika við vinsælu stelpurnar og allir strákarnir vilja bara leika við hana. allt í einu er hún orðin vinsæl. Um daginn hringdi ég í hana ég ætlaði að biðja hana um að vera vinkona mín aftur en hún svaraði og ég stamaði bara og skellti á svo talaði hún 5 skilaboð inná talhólfið og lét nýju vinkonur sínar tala inná líka, þær sögðu að ég væri ljót og leiðileg og að Hún vilji ekki sjá mig ég fékkk svo í magan af þessu að ég grét og grét í marga klukkutíma þangað til að ég gat ekki andað. Hún er svo vond við mig ég hef þekkt hana alla ævi og ég veit að hún hefur aldrei áður látið svona. Ég er grátandi núna í meðan ég er að skrifa. Hún er svo vond við mig. Hún er búin að segja öllum hverjum ég er skotin í. Ég er ekki búin að segja öllum hverjum hún er skotin í, vegna þess að ég þori því hreinlega ekki.

Í skólanum þegi ég allann daginn ég fer heim grét, fer í tölvuna og síðan kemur mamma mín heim. Ég hef grátið á hverjum einasta degi í 7 mánuði. Það sem hún er að gera mér er hræðilegt. Enginn skilur hvað ég er að ganga í gegnum. Ég hef einu sinni reynt að drepa mig það var fyrir 2 mánuðum ég fór ofan í ískalt bað og ég fór í kaf svo kom amma mín og ætlaði að fara bara í heimsókn en þá þóttist ég bara vera í baði. Ég vildi að ég gæti endurgoldið vinkonu mína aftur.

Komdu sæl

Það er algengt að á unglingsárum fjarlægist vinkonur og prófi að vera með öðrum. Þú ert ekki ein um að hafa lent í svona “vinkonuvanda”.  Umboðsmaður barna hefur t.d. fengið mjög bréf svipuð þínu. En ástandið sem þú lýsir í bréfi þínu virðist þó vera orðið mjög alvarlegt. Þér líður greinilega alveg hræðilega illa og þú getur ekki leyst þetta ein.

Þú ættir endilega að tala við foreldra þína um þetta eða einhvern annan fullorðinn sem þú treystir vel, t.d. ömmu eða frænku.  Foreldrar þínir vita líklega ekki hvað þér líður illa en ef þú bara segir þeim frá öllu saman geta þeir örugglega hjálpað þér og komið með einhvers konar lausn.  Treystu foreldrum þínum til að hjálpa þér – þau voru nú einu sinni unglingar líka og þau vilja þér örugglega allt hið besta.

Svo gætir þú líka rætt þetta við umsjónarkennarann þinn  í skólanum eða við námsráðgjafann ef hann er til staðar í skólanum þínum.  Frásögn þín ber keim af einelti, þ.e. að fyrrverandi (?) vinkona þín og hinar stelpurnar beini illgirnislegum athugasemdum að þér aftur og aftur.  Það er skólans að stoppa svona framkomu og reyndar ættu allir aðrir sem vita hvað er í gangi að koma þér til hjálpar og gera hinum stelpunum grein fyrir þeim skaða sem þær eru að valda.

Þá er gott fyrir þig að hafa í huga að vinkonur breytast og fjarlægjast og það er ekki endilega þitt að eltast við vinkonuna. Námsráðgjafinn í skólanum og/eða umsjónarkennarinn þinn geta örugglega hjálpað þér að efla vinskap við aðrar stelpur eða stráka.  Svo gætir þú e.t.v. prófað að byrja í einhverju skipulögðu íþrótta- eða æskulýðsstarfi.  Margir eignast sína bestu félaga í þannig frístundastarfi.

Ef þú vilt aðstoð frá utanaðkomandi fagfólki þá skaltu endilega kíkja á heimasíðu Tótalráðgjafarinnar, www.totalradgjof.is. Þangað geta unglingar og ungt fólk leitað með alls konar vandamál og spurningar. Það er hægt að senda tölvupóst, hringja og tala við ráðgjafa eða koma í heimsókn (í Hitt húsið í Reykjavík).

Í lokin vill umboðsmaður barna benda þér á hjálparsíma Rauða krossins, 1717.  Þú getur hringt þangað hvenær sem er til að ræða málin þegar þér líður illa. Það kostar ekkert að hringja og síminn er opinn allan sólarhringinn.

Ef ástandið breytist ekki þegar þú ert búin að tala við foreldra og starfsfólk skólans og þér líður ennþá svona illa skaltu ekki hika við að hafa samband aftur. Þú getur t.d. sent umboðsmanni tölvupóst á ub@barn.is

Gangi þér vel.

Kær kveðja frá umboðsmanni barna