English Danish Russian Thai Polish

Spurt og svarað

| 13 ára stelpa | Vinir og félagslíf

Langar að eignast vini og verða vinsæl

ég er oftast ein alla daga og ég er svakalega einmana ég veit ekkert hvað ég á að gera. ég og vinkona mín vorum að rífast og núna er hún orðin vinsæl og er byrjuð að mála sig og alltaf þegar ég sé hana langar mig bara til þess að gera henni eitthvað illt, en svo ´næ ég mér niður og fer bara í burtu.

Ég hata vinsæla krakka akkuru er ég ekki vinsæl??? Hvað get ég gert til að verða vinsæl og eignast einhverja vini sem vera mér góðir og traustir. Allir seiga að ég sé ljót því ég er nebblega með unglingabólur og er frekar stór eftir aldri. mér líður illa í skólanum.  En hvað get ég gert til að eignast vini og verða vinsæl.

Komdu sæl

Það er leitt að heyra að þú sért einmana og óánægð með sjálfa þig.  Svona “vinkonuvandamál” eins og þú talar um í bréfinu þínu geta verið mjög snúin og erfið.  Það er ekkert skrýtið að þér líði illa þegar þér finnst þú vera einmana og óvinsælli en aðrir en það er mikilvægt að þú vitir að það eru örugglega margir sem eru í svipuðum sporum og þú.

Yfirleitt er fólk allt of gagnrýnið á sjálft sig og óhóflega miklar kröfur gera ekkert nema auka sjálfsóánægjuna. Þetta á sérstaklega við um ungt fólk.  Enginn verður fullorðinn á einni nóttu og líkaminn þroskast ekki endilega í fullkomnum hlutföllum. Flestir unglingar eru því miður ósáttir við eitthvað í útliti sínu; of stórt nef, eyru, eða fætur, bólur, hárvöxtur, of lítill vöðvamassi, of feitur rass ............    

Það gæti verið gagnlegt fyrir þig að velta fyrir þér hversu eðlilegar fyrirmyndir þínar eru. Og hver veit hvernig þessum stelpum líður? Ætli þær séu 100% ánægðar með sjálfa sig? Svo er það auðvitað spurning hve langt þú vilt ganga til þess að geðjast öðrum. Ef þér finnst þú ekki tilbúin til að fara að mála þig ættir þú bara að bíða aðeins með það. 

Það eru ýmsar leiðir færar til að eignast vini. Hér á eftir eru nokkrar aðferðir, sem gætu hjálpað þér við að finna nýja vini. Listinn er tekinn upp úr bókinni Hvað er málið?, en í bókinni er fjallað um flest sem snertir líf barna og unglinga í dag. Þú getur örugglega fundið hana á bókasafninu.

1) Byrjaðu í einhverri hópíþrótt, t.d. fótbolta, blaki eða handbolta. Það er oft auðveldara að mynda tengsl innan lokaðra hópa og sérstaklega í gegnum sameiginleg áhugamál.
2) Ef þú ert ekki íþróttatýpa gætirðu athugað hvort skátar, Rauði krossinn eða kirkjan eru með unglingastarf í þínu bæjarfélagi. Hafðu í huga að oft er auðveldara að kynnast fólki á öðrum vettvangi en í skólanum.
3) Ef þú hefur eitthvert afmarkað áhugamál gæti verið að einhver í þínu bæjarfélagi hafi sama áhugamál, t.d. frímerkjasöfnun, fuglaskoðun, lestur, útivist, stjörnuskoðun, teiknimyndasögur eða eitthvað annað. Þú gætir auglýst í skólanum þínum eftir einhverjum sem hefði áhuga á að hittast og ræða áhugamálið þitt.
4) Vertu jákvæð. Segðu eitthvað uppörvandi eins og: "Þetta gengur bara vel hjá þér", eða: "Vá, hvað þú varst snögg að þessu".
5) Ef þér finnst gaman að skrifa bréf má finna pennavini, t.d. í tímaritum eins og Æskunni, eða á Netinu. 

Svo getur verið að félagsmiðstöðin “þín” sé með einhverja hópa sem hittast reglulega.  Þú skalt endilega ræða við starfsmann félagsmiðstöðvarinnar og athuga hvort hann/hún getur hjálpað þér eitthvað.  Þú ert örugglega ekki sú fyrsta sem upplifir sig í þessari erfiðu stöðu.

Svo er alltaf gott að ræða málin við einhvern fullorðinn sem maður treystir vel.  Það geta verið foreldrar þínir, eldri systkini, eða bara hver sem er, sem þér finnst gott að tala við. Þú getur líka leitað til ýmissa annarra aðila eftir stuðningi, t.d. getur þú talað um þetta við umsjónarkennarann þinn, námsráðgjafann í skólanum eða skólahjúkrunarfræðinginn.  Þá má benda þér á Hjálparsíma Rauða Krossins, 1717, sem er gjaldfrjáls sími og er opinn allan sólarhringinn fyrir þá sem þurfa aðstoð i ýmsum málum.  Þú þarft ekki að segja til nafns ef þú hringir í hjálparsímann.

Þú gætir auðvitað líka reynt að ræða málin við vinkonu þína sem þú varst að rífast við. Þá er best að hringja í hana eða reyna að hitta á hana í einrúmi.  Svona missætti er stundum byggt á einhvers konar misskilningi og því er gott að leita leiða til að leiðrétta hann.  Áður en þú gerir það væri þó kannski gott að ráðfæra sig við einhvern fullorðinn.

Gangi þér vel

Kær kveðja frá umboðsmanni barna