English Danish Russian Thai Polish

Spurt og svarað

| 11 ára stelpa | Vinir og félagslíf

Vinkona beitt ofbeldi heima??

Ég á mjög skemmtilega vinkonu sem er 10 ára en þegar við vorum í pleimó heima hjá henni þá vildi hún alltaf að pabbinn væri vondur við börnin... ég vildi það sko ekki!!!! en þá sagði hún mér að allir pabbar gera solis... ég sagði við hana að það væri sko ekki satt! pabbi minn væri aldrei vondur en þá fór hún bara að gráta og ég varð hrædd og hljóp heim...................... er ég vond vinkona? hún vill eki tala við mig... nema í frímínótum í skólanum þá sagði hún að ef að ég segði mömmu minni þá yrði hún drepin....svo hljóp hún bara til hinna stelpnanna... afkverju sagði hún það? af hverju má ég ekki segija mömmu að hún fór að gráta?

ég var að fá nýjan kettling í hittígær og ég skírði hana Nala.. alveg eins og kisan hanns pabba hét... en hún seigir að kisan mín sé ljót og eigi ljótt nafn.. er þetta ljótt nafn?

Komdu sæl

Það er greinilegt að vinkonu þinni líður illa. Af því sem þú segir má ráða að pabbi hennar beiti hana einhvers konar ofbeldi heima. Það er gott hjá þér að leita þér ráða um hvað sé best að gera.

Það má ekki beita börn ofbeldi. Það er alveg á hreinu. Ef vinkona þín er beitt ofbeldi heima hjá sér þarf hún hjálp.

Það sem við hin getum gert til að hjálpa börnum sem við höldum að líði illa heima hjá sér er að hafa samband við barnaverndarnefnd.  Auðveldast er að hringja í 112 og segja frá áhyggjum sínum.

Umboðsmaður barna ráðleggur þér að segja mömmu þinni (og pabba) frá því sem gerðist.  Þér mun örugglega líða betur að tala um þetta við foreldra þína.  Þú þarft samt ekki endilega að segja vinkonu þinni frá því að þú hafir talað um þetta heima hjá þér. Foreldrar þínir geta þá hringt í barnaverndina.  Þau þurfa ekki að gefa upp nafnið sitt þegar þau tala við starfsfólkið hjá barnaverndinni.

Þú (og foreldrar þínir) ættir líka að geta talað um þetta við umsjónarkennarann þinn, námsráðgjafann í skólanum – eða einhvern fullorðinn sem þú treystir í skólanum. Ef skólinn hringir í barnaverndarnefnd þá fá foreldrar vinkonu þinnar að vita að tilkynningin kom frá skólanum.

Til hamingju með kisuna þína.  Nala er flott nafn á kisu.

Gangi þér allt í haginn.

Kær kveðja frá umboðsmanni barna