English Danish Russian Thai Polish

Spurt og svarað

| 14 ára stelpa | Vinir og félagslíf

Félagsmiðstöð lögð niður

jahérna... ég bý fyrir austan og það er ekkert félagslíf þar sem ég bý.. :S  það á að leggja niður félagsmiðstöðinni okkar ZION.. og það er verið að pæla í að setja okkur í skólann og foreldrarnir eiga að vera yfir okkur, semsagt eitt foreldri og einn kennari... er þetta eðlilegt?? Er félagslíf þegar að foreldrar eru með manni..? ... bless og takk fyrir allt... kveðja einni án félagslífs 

Komdu sæl

Þú segir að það standi til að leggja niður félagsmiðstöðina á staðnum.   Félagsmiðstöðvar eru starfræktar á vegum sveitarfélaganna og því væri best að fara á fund bæjarstjórans eða sveitarstjórans þar sem þú býrð og ræða þetta mál við hann/hana. Ef allir krakkarnir í bænum eru sammála um þetta væri kannski góð hugmynd að útbúa undirskriftarlista til að afhenda sveitarstjóranum. Einnig myndi hjálpa til ef þið fengjuð einhverja fullorðna til að styðja við erindi ykkar, t.d. foreldra eða starfsfólk skólans.

Víða eru félagsmiðstöðvar innan skólanna. Þetta, eins og svo margt annað, er spurning um peninga. Þú segir að hugmynir séu uppi um að foreldrar myndu sinna gæslunni ásamt kennara. Það þarf nú kannski ekki að vera svo slæmt.  Foreldrar geta verið mjög skemmtilegir og hæfir til að sinna félagsstarfi með unglingum.

Umboðsmaður telur mjög mikilvægt að haft verði meira samráð við börn og unglinga; að það sé hlustað á og tekið tillit til skoðana þeirra, þegar teknar eru ákvarðanir sem skipta þau miklu máli.

Í sambandi við erindi þitt má geta þess að fyri ári síðan sendi þáverandi umboðsmaður barna, Þórhildur Líndal, félagsmálaráðherra álit sitt þar sem hún hvatti til að sett verði inn í sveitarstjórnarlög nýtt ákvæði um skyldur sveitarstjórna til samráðs við börn yngri en 18 ára.  Hún telur að þannig geti börn haft meiri áhrif á þau málefni sem snerta þau í sveitarfélaginu.

Bestu kveðjur frá umboðsmanni barna