English Danish Russian Thai Polish

Spurt og svarað

| 14 ára stelpa | Vinir og félagslíf

Baktal og samviskubit

Hæhæ. Ég er í vandræðum vegna þess að ég er með svo mikið samviskubit að mig langar ekki að mæta í skólann lengur. Ég baktalaði eina stelpu í skólanum og nú er sú saga búin að breytast þannig að ég hafi átt að labba upp að hanni og segja við hana svolítið en það er ekki rétt. Og núna eru allir á móti mér og meira að segja besta vinkona mín trúir því að ég myndi labba upp að manneskju og móðga hana. Ég er í ótrúlega miklum vandræðum og ég veit ekkert hvað ég á að gera. Getið þið hjálpað mér og sagt mér hvað ég á að gera í málunum því ég get ekki sagt skiljiði ég gerði þetta ekki því að ég baktalaði manneskjuna.

Komdu sæl

Mikið er þetta nú erfið staða sem þú ert komin í. Besta leiðin út úr svona vandræðum er yfirleitt sú að koma heiðarlega fram og segja sannleikann. Koma svona leiðindamálum út úr heiminum og biðjast afsökunar. Þú ættir að fá bestu vinkonu þína í lið með þér og þið gætuð saman rætt við þessa sem þú baktalaðir. Sú gæti þá um leið leiðrétt misskilninginn sem ríkir um það að þú hafir labbað upp að henni og sagt eitthvað leiðinlegt við hana. Það þarfnast mikils hugrekkis að viðurkenna mistök sín og biðjast afsökunar en oftast reynist það besta leiðin.

Ef þér líður mjög illa yfir þessu máli ættir þú að ræða um það sem fyrst við einhvern sem þú treystir. Það geta verið foreldrar þínir, eldri systkini, vinir eða bara hver sem er, sem þér finnst gott að tala við. Þú getur líka leitað til ýmissa annarra aðila eftir stuðningi, t.d. skólastjóra, umsjónarkennara, námsráðgjafa eða skólahjúkrunarfræðings. Þá má benda þér á Hjálparsíma Rauða krossins, 1717, sem er gjaldfrjáls sími og er opinn allan sólarhringinn fyrir þá sem þurfa aðstoð i ýmsum málum.

Vonandi gengur þetta vel hjá þér
með bestu kveðju frá umboðsmanni barna