English Danish Russian Thai Polish

Grunnskóli

Ábyrgð, réttindi og skyldur nemenda í grunnskólum

Nemendur eiga að sækja grunnskóla nema þegar þeir eru veikir eða þurfa að fá leyfi af öðrum ástæðum.

Nemendur bera ábyrgð á eigin námi, framkomu sinni, háttsemi og samskiptum við skólasystkin og starfsfólk skóla, þ.m.t. rafrænum samskiptum og netnotkun með hliðsjón af aldri og þroska þeirra.

Nemendur eiga rétt á að láta skoðanir sínar í ljós í málum sem þá varðar og skal tekið réttmætt tillit til skoðana þeirra.

Nemendum ber að hlíta fyrirmælum kennara og starfsfólks skóla, fara eftir skólareglum og fylgja almennum umgengnisreglum í samskiptum við starfsfólk og skólasystkin.

Nemendur eiga að fara eftir skólareglum. Viðbrögð við brotum á skólareglum skulu vera í samræmi við brotið og alltaf á að velja vægasta úrræðið sem er til þess fallið að ná fram settu markmiði. Gæta skal jafnræðis og samræmis í viðbrögðum og taka tillit til aðstæðna hvers og eins. Nemanda skal gefinn kostur á að tjá sig ef fundið er að hegðun hans vegna brota á skólareglum. Nánar um skólareglur og aga neðar á þessari síðu.

Allir nemendur grunnskóla eiga rétt á kennslu við sitt hæfi í hvetjandi námsumhverfi í viðeigandi húsnæði sem tekur mið af þörfum þeirra og almennri vellíðan. Grunnskólinn er vinnustaður nemenda. Þar skal gætt að því að:

  • nemendur finni til öryggis og njóti hæfileika sinna,
  • vinnuálag sé hæfilegt þannig að nemendur fái nægilega hvíld og
  • námsumhverfi sé hvetjandi og nemendur njóti vinnufriðar

Nemendur eiga rétt á að komið sé til móts við námsþarfir þeirra án tillits til líkamlegs eða andlegs atgervis.
Nemendur eiga rétt á sérstökum stuðningi í námi ef þeir eiga erfitt með nám, t.d. vegna

  • sértækra námserfiðleika,
  • tilfinningalegra eða félagslegra erfiðleika,
  • fötlunar,
  • leshömlunar,
  • langvinnra veikinda eða
  • annarra heilsutengdra sérþarfa. 

Ef móðurmál barns er annað en íslenska á það rétt á sérstakri íslenskukennslu í skólanum sínum.

Barn og foreldrar þess eiga rétt á upplýsingum um einkunnir barns og einnig að skoða próf sem búið er að gefa einkunn fyrir.

Ábyrgð, réttindi og skyldur starfsfólks í grunnskólum

Starfsfólk skóla á alltaf að hugsa um velferð nemenda og passa það að nemendur séu öruggir, líði vel og hafi vinnufrið. Starfsfólki ber að stuðla að jákvæðum skólabrag og góðri umgengni.

Starfsfólk á að koma vel fram við nemendur og gæta trúnaðar. Starfsfólk má ekki segja öðrum frá persónulegum málum sem nemendur segja þeim frá nema nauðsynlegt sé að segja barnaverndinni frá en barnaverndin á að hjálpa börnum sem eiga mjög erfitt. Stjórnendum skóla ber að vinna að því að stuðla að jákvæðum samskiptum og gagnkvæmu trausti allra í skólanum.

Skólastjórnendur og kennarar eiga að vinna með foreldrum til að hegðun, líðan og samskipti barna þeirra séu í góðu lagi. Umsjónarkennarar eiga að tala við foreldra um skólabrag og bekkjarbrag.

Skólastjórnendum og kennurum ber að segja foreldrum frá ef nemandi brýtur skólareglur oft eða kemur illa fram við aðra í skólanum. Þetta á líka við um útiveru á skólatíma og ferðir utan skólalóðar á vegum skólans.

Ábyrgð, réttindi og skyldur foreldra barna  í grunnskólum

Foreldrar skulu gæta hagsmuna barna sinna á skólaskyldualdri. Foreldrar bera ábyrgð á námi barna sinna og þeir eiga að fylgjast með hvernig þeim gengur í skólanum. Foreldrar eiga t.d. að passa það að börnin mæti úthvíld í skólann á réttum tíma, læri heima, borði hollan mat og fylgi skólareglum. Eftir því sem börn eldast eykst þeirra eigin ábyrgð samt á þessum hlutum. Foreldrar eiga að fá tækifæri til að taka þátt í námi barnsins og í skólastarfinu almennt. Foreldrar þurfa stundum að hafa samráð við skólann um það hvernig er best að haga námi barns og styðja við skólagöngu þess. Foreldrum er skylt að veita grunnskóla upplýsingar um barn sitt sem nauðsynlegar eru fyrir skólastarfið og velferð barnsins. 

Skólareglur og brot á þeim

Börnum á skólaskyldualdri er skylt að sækja skóla nema þegar veikindi eða önnur forföll koma í veg fyrir það og bera foreldrar þeirra ábyrgð á að þau geri það. Í 14. gr. grunnskólalaga segir að nemendur bera ábyrgð á eigin námi og á framkomu sinni og samskiptum með hliðsjón af aldri og þroska. Nemendur eiga að hlýða fyrirmælum kennara og starfsfólks grunnskóla í öllu því sem skólann varðar, fara eftir skólareglum og fylgja almennum umgengnisreglum í samskiptum við starfsfólk og skólasystkin. Starfsmenn, nemendur og foreldrar skapa í sameiningu góðan starfsanda í skóla.

Í skólanámskrá eru m.a. birtar skólareglur. Í skólareglum skal m.a. kveðið á um almenna umgengni, samskipti, stundvísi, ástundun náms og heilbrigðar lífsvenjur. Í reglunum skal koma fram hvernig skólinn hyggst bregðast við brotum á þeim. Skólastjóri er ábyrgur fyrir gerð skólareglna og kynningu þeirra og skulu þær unnar í samráði við skólaráð og fulltrúa nemenda í skólaráði. Það er á valdi hvers skóla að útbúa sínar eigin skólareglur og geta þær verið mismunandi frá einum skóla til annars. En þrátt fyrir að mismunandi reglur gildi milli einstakra skóla eru skólarnir bundnir af ákveðnum grunnreglum eins og t.d. um lágmarkstíma nemenda í skólanum og lágmarkshvíld nemenda meðan skóladagurinn varir.

Ef nemandi hegðar sér mjög illa í skólanum og fylgir ekki skólareglum á kennari hans að leita orsaka þess og reyna að ráða á því bót, m.a. með viðtölum við nemandann sjálfan og foreldra hans. Verði samt ekki breyting á til batnaðar skal kennari leita aðstoðar skólastjóra og sérfróðra ráðgjafa skólans (t.d. námsráðgjafa eða hjúkrunarfræðings) sem leita leiða til úrbóta. Meðan leitað er leiða fyrir nemandann getur skólastjóri vísað nemanda úr skóla um stundarsakir eða ótímabundið, en þá verður hann strax að tilkynna foreldrum nemanda og skólanefnd um þá ákvörðun. Skólanefnd er skylt að tryggja nemanda, sem vikið hefur verið úr skóla, viðeigandi kennsluúrræði eins fljótt og auðið er og aldrei síðar en innan þriggja vikna. Það má ekki víkja nemanda að fullu úr skóla nema honum hafi verið tryggt annað kennsluúrræði.

Þetta er úr reglugerð um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum nr. 1040/2011. Fyrir áhugasama er hér brot úr henni:

V. KAFLI Brot á skólareglum.
11. gr.
Misbrestur á hegðun nemenda.

Brjóti nemandi af sér skal kennari ræða við nemanda um hegðun hans til þess að hann geri sér grein fyrir eðli brotsins og afleiðingum þess og átti sig á ábyrgð sinni. Kennari skal hafa samráð við foreldra í samræmi við eðli máls og leita aðstoðar skólastjórnenda og sérfróðra ráðgjafa skólans sem leita leiða til úrbóta, eftir atvikum að teknu tilliti til hlutverks barnaverndaryfirvalda. Leggja skal áherslu á að leitað sé eftir samkomulagi og sáttaleiðum.

Veita skal nemendum stuðning sýni þeir af sér óæskilega hegðun og/eða slaka ástundun og leitast við að koma skólagöngu þeirra í viðunandi horf í samstarfi við foreldra. Taka skal tillit til aðstæðna og þarfa nemenda og stuðla að alhliða þroska, velferð og menntun hvers og eins.

Nýta skal til fullnustu allar þær leiðir sem skólinn hefur tiltækar til að leita lausna og ráða bót á hegðun nemenda, að teknu tilliti til þroska þeirra, félagslegra eða tilfinningalegra erfiðleika, eða aðstæðna að öðru leyti. Hegði nemandi sér í ósamræmi við skólareglur utan skólatíma telst það almennt ekki brot á skólareglum, nema þegar t.d. er um að ræða einelti eða annað ofbeldi sem á sér stað á leið nemanda til og frá skóla. Fer þá um viðbrögð í samræmi við skólareglur.

Foreldrum skal ætíð svo fljótt sem auðið er gerð grein fyrir brotum barna sinna á skólareglum og viðbrögðum skólans og gefa skal foreldrum kost á að tjá sig ef börn þeirra brjóta skólareglur.

12. gr.
Ítrekuð brot nemenda á skólareglum.

Ef hegðun nemanda reynist verulega áfátt ber umsjónarkennara hans að leita orsaka og reyna að ráða á því bót, m.a. með viðtölum við nemandann sjálfan og foreldra hans og eftir atvikum með samningum. Sérstaklega skal skoða þroska nemanda, náms- og kennsluhætti, skólabrag, samsetningu námshópa, aðstæður í nemenda- og félagahópnum, samskipti kennara og nemenda og samstarf heimila og skóla.

Verði samt ekki breyting á til batnaðar skulu kennarar leita aðstoðar skólastjórnenda og sérfróðra ráðgjafa skólans á vegum sérfræðiþjónustu sveitarfélaga, sem skulu leita leiða til úrbóta, að teknu tilliti til hlutverks nemendaverndarráðs, skv. reglugerð nr. 584/2010 um sérfræðiþjónustu sveitarfélaga við leik- og grunnskóla og nemendaverndarráð í grunnskólum og hlutverks barnaverndaryfirvalda.

Gagnvart nemanda sem virðir ekki skólareglur, þrátt fyrir undangengnar aðvaranir og áminningar, má grípa til þeirra viðbragða að taka nemanda úr kennslu og láta hann fást við önnur viðfangsefni það sem eftir lifir skóladags. Einnig er heimilt að vísa nemanda tímabundið úr kennslustundum í ákveðinni námsgrein. Jafnframt er heimilt að meina nemanda þátttöku í félags- og tómstundastarfi á vegum skólans vegna agabrota í félags- og tómstundastarfi. Tryggja skal að nemandi sé í umsjón starfsfólks á vegum skólans á skólatíma eða í öðru kennsluúrræði innan skólans. Einnig er hægt að kalla eftir því að foreldri sæki viðkomandi nemanda í skólann.

Ef nemandi virðir enn ekki skólareglur og ítrekuð brot hans á skólareglum eru alvarleg má vísa nemanda um stundarsakir úr skóla á meðan reynt er að finna lausn á máli hans, að hámarki eina kennsluviku. Ef allt um þrýtur og brot nemanda eru mjög alvarleg, s.s. ef hann veldur öðrum skaða eða eignatjóni, er heimilt að víkja honum ótímabundið úr skóla. Það skal þó ekki gert fyrr en allar aðrar leiðir hafa verið reyndar.

13. gr.
Líkamlegt inngrip í mál nemenda vegna óásættanlegrar og/eða skaðlegrar hegðunar.

Starfsfólki skóla er óheimilt að beita líkamlegum refsingum og líkamlegu inngripi í refsingarskyni.

Ef starfsfólk skóla metur að háttsemi nemenda leiði af sér hættu fyrir samnemendur og/eða starfsfólk skóla ber starfsfólki skylda til að bregðast tafarlaust við slíku með líkamlegu inngripi til að stöðva nemanda. Líkamlegu inngripi skal aðeins beitt í ítrustu neyð og eingöngu þegar ljóst er að aðrar leiðir duga ekki til að forða nemanda frá því að skaða sig og/eða aðra. Starfsfólki skóla er óheimilt að neyta aflsmunar nema nauðsyn krefji til að stöðva ofbeldi eða koma í veg fyrir að nemandi valdi sjálfum sér eða öðrum skaða eða eignatjóni. Skal þess ávallt gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn ber til í samræmi við meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Láta skal tafarlaust af inngripi er hættu hefur verið afstýrt. Skólastjóri skal sjá til þess að atvik samkvæmt þessari málsgrein séu skráð og varðveitt í skólanum svo og ferill máls og ákvarðanir sem teknar eru í kjölfarið, í samræmi við lög um persónuvernd nr. 77/2000. Atvikaskráning skal fela í sér lýsingu á aðdraganda, atburðinum sjálfum og mati á þeirri hættu sem orsakast hefði af athafnaleysi.

Mikilvægt er að starfsfólk vinni ekki eitt við slíkar aðstæður og kalli eftir aðstoð annars starfsfólks skólans eða viðeigandi utanaðkomandi aðstoð, t.d. frá lögreglu, heilsugæslu eða öðrum eftir atvikum.

Skólastjóri getur synjað nemanda um að sækja skóla tímabundið þegar rökstuddur grunur leikur á að hann sé undir áhrifum vímuefna á skólatíma og/eða stuðlar að dreifingu slíkra efna meðal nemenda. Heimilt er við slíkar aðstæður að höfðu samráði við foreldra að láta þar til bæra aðila meta reglulega ástand viðkomandi nemanda og meina honum að sækja skóla þar til fyrir liggur að hann sé ekki lengur undir áhrifum vímuefna.

Í hverjum grunnskóla skulu vera til verklagsreglur unnar af starfsfólki skóla vegna tilvika þegar nauðsynlegt er að grípa til tafarlausra aðgerða þegar stöðva þarf óásættanlega hegðun nemanda, bregðast við hótunum eða rökstuddur grunur er um að nemandi sé undir áhrifum vímuefna. Í verklagsreglum skal kveðið á um málsmeðferð skv. 14. gr. Verklagsreglurnar skulu vera hluti af starfsáætlun hvers skóla.

Sambandi íslenskra sveitarfélaga er heimilt að taka saman leiðbeiningar fyrir skóla þar sem m.a. er nánar kveðið á um verklagsreglur og viðbragðsáætlun innan skóla og viðeigandi utanaðkomandi aðstoð samkvæmt þessari grein.

VI. KAFLI Málsmeðferðarreglur.
14. gr.
Málsmeðferð vegna brota nemenda á skólareglum.

Væg viðbrögð og úrræði sem skólar beita til að halda uppi aga og almennum umgengnisvenjum teljast almennt ekki til stjórnvaldsákvarðana og falla því ekki undir 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga. Hið sama gildir þegar nemanda er vikið úr skóla það sem eftir lifir skóladags eða úr einstökum kennslustundum eða úr tilteknu félags- og tómstundastarfi á vegum skólans.

Brottvísun úr skóla telst stjórnvaldsákvörðun og gilda stjórnsýslulög um málsmeðferðina. Einnig skal gæta stjórnsýslulaga þegar nemanda er tímabundið eða ótímabundið meinað að sækja kennslustundir í tiltekinni námsgrein eða taka þátt í tilteknu félags- og tómstundastarfi á vegum skólans Við meðferð máls samkvæmt 4. mgr. 12. gr. og 4. mgr. 13. gr. reglugerðar þessarar og beitingu viðurlaga samkvæmt þeim málsgreinum skal gæta ákvæða stjórnsýslulaga, þ.m.t. andmælaréttar, meðalhófs, jafnræðisreglu og rannsóknar- og upplýsingaskyldu. Um 2. mgr. 13. gr. gildir jafnræðisregla 11. gr. stjórnsýslulaga.

Ávallt skal leita samstarfs við foreldra nemanda um úrlausn máls. Skólastjóri skal sjá til þess að atvik sem skipta máli vegna úrlausnar mála séu skráð og varðveitt í skólanum, ferli máls og ákvarðanir sem teknar eru vegna brota á skólareglum, í samræmi við lög um persónuvernd og reglugerð nr. 897/2009 um miðlun og meðferð upplýsinga um nemendur í grunnskólum og rétt foreldra til aðgangs að upplýsingum um börn sín. 

15. gr.
Brottvísun um stundarsakir og ótímabundin brottvísun.

Áður en ákvörðun um brottrekstur nemanda skv. 4. mgr. 12. gr. er tekin skal gefa foreldrum kost á að kynna sér gögn sem liggja til grundvallar fyrirhugaðri ákvörðun og koma á framfæri athugasemdum og andmælum, skv. 13. gr. stjórnsýslulaga.

Meðan mál skv. 4. mgr. 12. gr. er óútkljáð getur skólastjóri vísað nemanda úr skóla um stundarsakir eða ótímabundið, enda tilkynni hann formlega og tafarlaust þá ákvörðun foreldrum nemanda og skólanefnd.

Nemanda skal að jafnaði ekki vikið úr skóla lengur en eina viku sé um að ræða tímabundna brottvísun. Ef fyrirsjáanlegt er að skólastjóra takist ekki að leysa mál nemanda á þeim tíma skal hann vísa því til skólanefndar sem beitir sér eins fljótt og við verður komið fyrir lausn málsins í samráði við sérfræðiþjónustu sveitarfélaga í samstarfi við foreldra.

Sé nemanda vikið ótímabundið úr skóla skv. 4. mgr. 12. gr. skal skólastjóri strax tilkynna skólanefnd þá ákvörðun. Eftir að máli hefur verið vísað til skólanefndar ber hún ábyrgð á því að nemanda sé tryggð skólavist eða önnur viðeigandi kennsluúrræði eins fljótt og auðið er og aldrei síðar en innan þriggja vikna.

Óheimilt er að víkja nemanda að fullu úr skóla nema honum hafi verið tryggt annað kennsluúrræði.

Takist ekki að leysa málið getur hvor aðili, foreldri eða skólanefnd, vísað ágreiningi til úrlausnar og úrskurðar ráðuneytisins.

Aðstoð í boði fyrir grunnskólanema

Allir geta átt í einhverjum erfiðleikum í skólanum, ýmist tímabundið eða til lengri tíma. Ástæður eru t.d. áföll, fötlun, hegðunar- eða geðraskanir, námsörðugleikar, slys eða erfiðar heimilisaðstæður. Ef manni líður illa heima hjá sér getur það haft áhrif á líðan og árangur í skólanum. Einnig eru margir sem eiga erfitt með að skipuleggja tíma sinn og aðrir sem hafa einfaldlega allt of mikið að gera, t.d. vegna frístundaiðkunar og vinnu.

Það er eðlilegt að þurfa stundum að fást við vandamál og áhyggjur og að takast á við erfiðleikana getur verið þroskandi. Það er sjálfsagt og eðlilegt að leita sér upplýsinga, stuðnings og aðstoðar. Starfsfólk skólans leiðbeinir nemendum og foreldrum um hvaða leiðir er best að fara en oft finnur nemandinn sjálfur lausn á vandanum eftir að hafa rætt málin við starfsfólk skólans.

Umsjónarkennarinn 

Umsjónarkennarar eiga að aðstoða nemendur við að leysa úr persónulegum málum sem og námslegum. Þeir geta líka vísað nemendum á fagfólk innan skólans, eins og t.d. hjúkrunarfræðinginn eða námsráðgjafann.

Námsráðgjafinn 

Nemendur eiga rétt á að njóta náms- og starfsráðgjafar í grunnskóla. Það er mismunandi hvernig fyrirkomulagið er en í flestum skólum starfa námsráðgjafar eða á skólaskrifstofum. Sumir skólar eru líka með skólafélagsráðgjafa eða sálfræðing. Þessir sérfræðingar geta hjálpað og ráðlagt nemendum sem eiga í alls kyns erfiðleikum, í skólanum, heima hjá sér eða í sambandi við vinina. Dæmigerð mál sem námsráðgjafinn vinnur með nemendum eru t.d. námsörðugleikar, fötlun, geðraskanir eða hegðunarraskanir. Einnig hjálpar hann nemendum að takast á við vanlíðan, erfiðleika á heimilinu og félagslega erfiðleika. Námsráðgjafinn vinnur þá oft í samstarfi við aðra starfsmenn skólans, eins og t.d. sérkennsluráðgjafa, stuðningsfulltrúa og sálfræðinga.

Hjúkrunarfræðingurinn

Hjúkrunarfræðingar starfa í grunnskólum. Þeir eru yfirleitt með fastan viðverutíma í skólanum en oft eru þeir ekki í fullu starfi í skólanum. Nemendur geta leitað til hjúkrunarfræðingsins með ýmis mál varðandi heilsu og líðan. Skólahjúkrunarfræðingurinn getur t.d. aðstoðað nemendur með mál sem varða vanlíðan, verki, næringu, útlit, húðvandamál, kynlíf og getnaðarvarnir.

Starfsfólk félagsmiðstöðvarinnar 

Innan sumra skóla eða í nágrenni þeirra starfa félagsmiðstöðvar. Mörgum finnst mjög gott að ræða málið við starfsfólk þeirra og fá ráðgjöf og aðstoð.

Trúnaður

Allir ofangreindir starfsmenn eru bundnir trúnaði um persónuleg málefni nemenda. Þeir eru þó ekki undanþegnir tilkynningarskyldu barnaverndarlaga en samkvæmt þeim lögum er öllum skylt að tilkynna barnaverndarnefnd ef barn býr við óviðunandi aðstæður  eða er hættulegt sjálfu sér eða öðrum.

Nemendaverndarráð 

Nemendaverndarráð fjallar um sérstök úrræði fyrir einstaka nemendur. Þurfi nemandi, að mati umsjónarkennara, á sérstakri aðstoð að halda vegna fötlunar, sjúkdóms eða námslegra, félagslegra eða tilfinningalegra erfiðleika, á umsjónarkennari að vísa málinu til skólastjóra sem getur lagt málið fyrir nemendaverndarráð

Meira um erfiðleika í skólanum hér.

Erfið samskipti við starfsfólk

Ef nemanda finnst framkoma kennara ekki góð er gott að ræða málin fyrst heima og síðan er best að láta skólastjórnendur eða annað starfsfólk skólans vita af því. Ef það reynist ekki vel má leita til næsta stjórnsýslustigs sem er skólanefnd/sveitarstjórn (Skóla- og frístundaráð í Reykjavík). Í stærri bæjum starfar skólaskrifstofa (Skóla- og frístundasvið í Reykjavík) í umboði skólanefndar/sveitarstjórnar.

Jafnframt því sem mikilvægt er að ræða málin við skólastjórnendur er mikilvægt að börn og unglingar ræði við foreldra sína ef þeim finnst þau ekki fá sanngjarna meðferð í skólanum. Best gengur að leysa úr erfiðleikum nemanda í skólanum ef heimilið og skólinn vinna saman. Þess vegna eru góð og regluleg samskipti heimilis og skóla mjög mikilvæg fyrir velferð barna og unglinga.

Erfið samskipti nemenda

Einstaklingar eru missterkir félagslega. Sumir eiga mjög auðvelt með að eignast vini en aðrir ekki enda hafa einstaklingar mismikla þörf fyrir félagsskap. Starfsfólk skólans getur leiðbeint þeim nemendum sem eiga í erfiðleikum með að eignast félaga í skólanum. Einnig geta nemendur sem lent hafa í samskiptavanda sín á milli leitað til starfsfólks skólans til að finna lausn á vandanum.

Mikilvægt er að viðurkenna að einelti á sér stað í skólum, óháð stærð og staðsetningu. Þó að meirihluti nemenda eigi ekki beina aðild að einelti veit þessi hópur hins vegar oft af eineltinu löngu áður en hinir fullorðnu fá vitneskju um það. Mikilvægt er þessi hópur „hlutlausra áhorfenda“ taki afstöðu gegn einelti í verki og segi starfsfólki skólans frá því hvað er í gangi.

Samkvæmt Aðalnámskrá grunnskóla verður í hverjum skóla að vera til áætlun um hvernig skuli brugðist við ef upp kemst um einelti í skólanum og öllum aðilum þarf að vera ljóst hver vinnur með slík mál innan skólans og hvernig.

Hver ræður hverju?

Sveitarfélögum er skylt að halda skóla fyrir öll börn og unglinga á aldrinum 6 til 16 ára í samræmi við lög um grunnskóla. Allur rekstur almennra grunnskóla er á ábyrgð og kostnað sveitarfélaga og þau geta ráðið miklu um það hvernig þau skipuleggja skólastarfið.

Skólastjóri er æðsti yfirmaður í hverjum skóla en í mörgum málum þarf hann að vinna í samvinnu við skólaskrifstofuna í sveitarfélaginu (Skóla- og frístundaráð í Reykjavík). Í stærri bæjum starfar sérstök skólaskrifstofa (Skóla- og frístundasvið í Reykjavík) í umboði skólanefndar/sveitarstjórnar eftir því sem við á. Bæjarstjóri/sveitarstjóri/borgarstjóri starfar líka í umboði sveitarstjórnar. Menntamálaráðuneytið fer með yfirstjórn skólamála á landinu.

Upplýsingar um skóla og menntun

Ef þig vantar almennar upplýsingar um grunnskóla, eða hefur ábendingar um eitthvað sem betur mætti fara í skólanum þínum, ættirðu að ræða um það t.d. við umsjónarkennarann þinn, námsráðgjafann eða skólastjórann. Skólaráð er samráðsvettvangur skólastjórnenda og skólasamfélagsins. Nemendur eiga tvo fulltrúa sem sitja í skólaráði. Þessir nemendur eru tengiliðir allra hinna nemendanna við skólaráðið og þeir geta komið fyrirspurnum og tillögum til skólaráðsins. Þú getur líka skrifað skólanefndinni í sveitarfélagi þínu bréf til að leita upplýsinga eða koma skoðunum þínum á framfæri. Allir grunnskólar eru með heimasíðu þar sem hægt er að nálgast ýmsar upplýsingar varðandi skólastarf. Hér er hægt að finna upplýsingar um alla grunnskóla landsins.

Vantar svör?

Vantar þig svör? Sendu þá fyrirspurn hér.

Meiri upplýsingar um grunnskólamál eru hér á aðalsíðu umboðsmanns barna.