English Danish Russian Thai Polish

Framhaldsskóli

Ábyrgð, réttindi og skyldur nemenda í framhaldsskólum

Þeir sem lokið hafa grunnskólanámi, hafa hlotið jafngilda 

undirstöðumenntun eða hafa náð 16 ára aldri eiga rétt á að hefja nám í framhaldsskóla og stunda nám til 18 ára aldurs.

Nemendur bera ábyrgð á eigin námi, framkomu sinni og samskiptum. Þeir eiga að fara eftir fyrirmælum kennara og starfsfólks framhaldsskóla í öllu því sem skólann varðar, fara eftir skólareglum og fylgja almennum umgengnisreglum í samskiptum við starfsfólk og samnemendur. Ef nemandi hegðar sér mjög illa ber skólanum að leita orsaka þess og reyna að ráða á því bót, m.a. með viðtölum við nemandann sjálfan og foreldra hans.

Nemendur eiga rétt á því að koma á framfæri sjónarmiðum sínum varðandi námsumhverfi, námstilhögun, fyrirkomulag skólastarfs og aðrar ákvarðanir sem snerta þá. Taka skal tillit til sjónarmiða þeirra eins og unnt er.

Allir nemendur framhaldsskóla eiga rétt á kennslu við sitt hæfi í hvetjandi námsumhverfi í viðeigandi húsnæði sem tekur mið af þörfum þeirra og almennri vellíðan.

Framhaldsskóli er vinnustaður nemenda. Framhaldsskóli skal haga störfum sínum þannig að:

  • nemendur finni til öryggis og njóti hæfileika sinna,
  • vinnuálag verði ekki of mikið miðað við almenn vinnuverndarsjónarmið.

Nemendur eiga rétt á að njóta náms- og starfsráðgjafar í framhaldsskóla

Nemendur með fötlun og nemendur með tilfinningalega eða félagslega örðugleika eiga rétt á kennslu og sérstökum stuðning í námi, t.d. með aðstoð sérfræðinga og viðeigandi aðbúnaði eftir því sem þörf krefur.

Ábyrgð, réttindi og skyldur starfsfólks í framhaldsskólum

Skólastjórnendum og kennurum ber að eiga samráð við foreldra um hegðun, líðan og samskipti barna þeirra yngri en 18 ára.

Ábyrgð, réttindi og skyldur foreldra barna  í framhaldsskólum

Foreldrar barna í framhaldsskóla bera mikla ábyrgð á námi og líðan þeirra og því eiga kennarar og starfsfólk skólans að hafa samráð við foreldra um persónuleg mál nemenda undir 18 ára aldri. Ef nemandi hegðar sér illa eða brýtur ítrekað skólareglur á skólinn að leita orsaka þess og reyna að ráða á því bót, m.a. með viðtölum við nemandann sjálfan og foreldra hans. Foreldraráð skal starfa í hverjum skóla. Stjórn foreldraráðs tilnefnir áheyrnarfulltrúa í skólanefnd.

Skólareglur og brot á þeim

Hver skóli skal setja sér skólareglur og birta þær í skólanámskrá. Í reglunum skal m.a. kveðið á um hegðun og almenna umgengni, samskipti, heilbrigðar lífsvenjur, skólasókn, námsframvindu, meðferð ágreiningsmála og beitingu viðurlaga.

Aðstoð í boði fyrir framhaldsskólanema

Allir geta átt í einhverjum erfiðleikum í skólanum, ýmist tímabundið eða til lengri tíma. Ástæður eru t.d. áföll, fötlun, hegðunar- eða geðraskanir, námsörðugleikar, slys eða erfiðar heimilisaðstæður. Ef manni líður illa heima hjá sér getur það haft áhrif á líðan og árangur í skólanum. Einnig eru margir sem eiga erfitt með að skipuleggja tíma sinn og aðrir sem hafa einfaldlega allt of mikið að gera, t.d. vegna frístundaiðkunar og vinnu.

Það er eðlilegt að þurfa stundum að fást við vandamál og áhyggjur og að takast á við erfiðleikana getur verið þroskandi. Það er sjálfsagt og eðlilegt að leita sér upplýsinga, stuðnings og aðstoðar. Starfsfólk skólans leiðbeinir nemendum og foreldrum um hvaða leiðir er best að fara en oft finnur nemandinn sjálfur lausn á vandanum eftir að hafa rætt málin við starfsfólk skólans, t.d. umsjónarkennara sinn eða námráðgjafa.

Nemendur eiga rétt á að njóta náms- og starfsráðgjafar í framhaldsskóla af aðilum sem uppfylla skilyrði laga um náms- og starfsráðgjafa. Í skólanámskrá framhaldsskóla skal markmiðum og stefnu skóla varðandi ráðgjöf lýst og þar skal einnig koma fram hvernig skóli rækir skyldur sínar og hlutverk á þessu sviði. Dæmigerð mál sem námsráðgjafinn vinnur með nemendum eru t.d. námsörðugleikar, fötlun, geðraskanir eða hegðunarraskanir. Einnig hjálpar hann nemendum að takast á við vanlíðan, erfiðleika á heimilinu og félagslega erfiðleika. 

Starfsmenn eru bundnir trúnaði um persónuleg málefni nemenda. Þeir eru þó ekki undanþegnir tilkynningarskyldu barnaverndarlaga en samkvæmt þeim lögum er öllum skylt að tilkynna barnaverndarnefnd ef barn býr við óviðunandi aðstæður  eða er hættulegt sjálfu sér eða öðrum.

Erfið samskipti við starfsfólk

Ef nemanda finnst framkoma kennara ekki góð er gott að ræða málin fyrst heima og síðan er best að láta skólastjórnendur eða annað starfsfólk skólans vita af því. Ef það reynist ekki vel má leita til næsta stjórnsýslustigs sem er skólanefnd/sveitarstjórn (Skóla- og frístundaráð í Reykjavík). Í stærri bæjum starfar skólaskrifstofa (Skóla- og frístundasvið í Reykjavík) í umboði skólanefndar/sveitarstjórnar.

Jafnframt því sem mikilvægt er að ræða málin við skólastjórnendur er mikilvægt að börn og unglingar ræði við foreldra sína ef þeim finnst þau ekki fá sanngjarna meðferð í skólanum. Best gengur að leysa úr erfiðleikum nemanda í skólanum ef heimilið og skólinn vinna saman. Þess vegna eru góð og regluleg samskipti heimilis og skóla mjög mikilvæg fyrir velferð barna og unglinga.

Erfið samskipti nemenda

Einstaklingar eru missterkir félagslega. Sumir eiga mjög auðvelt með að eignast vini en aðrir ekki enda hafa einstaklingar mismikla þörf fyrir félagsskap. Starfsfólk skólans getur leiðbeint þeim nemendum sem eiga í erfiðleikum með að eignast félaga í skólanum. Einnig geta nemendur sem lent hafa í samskiptavanda sín á milli leitað til starfsfólks skólans til að finna lausn á vandanum.

Mikilvægt er að viðurkenna að einelti á sér stað í skólum, óháð stærð og staðsetningu. Þó að meirihluti nemenda eigi ekki beina aðild að einelti veit þessi hópur hins vegar oft af eineltinu löngu áður en hinir fullorðnu fá vitneskju um það. Mikilvægt er þessi hópur „hlutlausra áhorfenda“ taki afstöðu gegn einelti í verki og segi starfsfólki skólans frá því hvað er í gangi.

Hver ræður hverju?

Framhaldsskólar landsins starfa samkvæmt lögum um framhaldsskóla og eru þeir flestir ríkisreknir. Mennta- og menningarmálaráðherra getur líka veitt einkaskólum viðurkenningu til kennslu á grundvelli laga um framhaldsskóla og reglna settra samkvæmt þeim. Menntamálaráðherra fer með yfirstjórn þeirra mála sem lög um framhaldsskóla taka til og ber ábyrgð á aðalnámskrá, eftirliti með skólastarfi og námsefni, ráðgjöf um kennslu og þróunarstarf í framhaldsskólum og söfnun og dreifingu upplýsinga um skólastarf.

Skólameistari eða rektor eftir því sem við á veitir framhaldsskólunum forstöðu. Menntamálaráðuneytið fer með yfirstjórn allra framhaldsskóla landsins og skipar skólanefnd við hvern framhaldsskóla til fjögurra ára í senn til að fara með yfirstjórn framhaldsskólanna skv. reglugerð um skólanefndir við framhaldsskóla. landsins. 

Upplýsingar um skóla og menntun

Ef þig vantar almennar upplýsingar um framhaldsskólann, eða hefur ábendingar um eitthvað sem betur mætti fara í skólanum þínum, ættirðu að ræða um það t.d. við umsjónarkennarann þinn, námsráðgjafann eða skólastjórann. Ef þú hefur spurningar varðandi framhaldsskóla, er ágætt að byrja að leita á heimasíðu viðkomandi skóla. Hér finnur þú alla framhaldsskóla landsins.

Vantar svör?

Vantar þig svör? Sendu þá fyrirspurn hér.

Meiri upplýsingar um framhaldsskóla eru hér á aðalsíðu umboðmanns barna