English Danish Russian Thai Polish

Réttindi og ráðgjöf

Vinna

Gott að hafa í huga

Flestum finnst gott að unglingar fái tækifæri til þess að vinna, t.d. í sumarfríum og stundum um helgar. Þannig fá þau reynslu og þjálfun í störfum auk þess sem það skaðar ekki að vinna sér inn sína eigin peninga.  Börn og unglingar sem eru í skóla verða samt að muna að nám er full vinna. Það er því ekki gott að ráða sig í starf sem tekur of mikinn tíma frá náminu. Það eru til reglur um vinnu barna og unglinga. Þær segja til um vinnutíma, hvíldartíma og hvaða störf eru talin henta hvaða aldri.

Börn ráða almennt sjálf yfir þeim peningum sem þau vinna sér inn. Það er samt mikilvægt að foreldrar ráðleggi börnum sínum hvernig best er að passa upp á peningana, Foreldrar eiga líka að passa upp á að börn þekki réttindi sín á vinnumarkaði og hjálpa þeim ef það er ekki allt í lagi. Börn geta líka leitað til stéttarfélaga, Vinnueftirlitsins og ríkisskattstjóra ef þau vantar leiðbeiningar eða hafa áhyggjur af því að vinnuveitandi þeirra sé ekki að fylgja reglum.

Hvaða reglur gilda um vinnu?

Um vinnu barna og unglinga undir 18 ára aldri gildir X. kafli laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og reglugerð um vinnu barna og unglinga. Lögin gilda samt ekki um  vinnu sem varir í stuttan tíma, t.d. inni á heimilum eða í fjölskyldufyrirtækjum sem hvorki telst skaðleg né hættuleg fyrir unglinga.

Lögin eiga að koma í veg fyrir að börn eða unglingar vinni störf sem geta talist hættuleg fyrir þau andlega eða líkamlega eða koma niður á menntun þeirra og þroska.

Í lögunum er börnum yngri en 18 ára skipt upp í tvo hópa, annars vegar börn yngri en 15 ára sem enn eru í skyldunámi og hins vegar unglinga á aldrinum 15 til 18 ára sem eru ekki lengur í skyldunámi.

Vinna barna yngri en 15 ára

Almenna reglan er sú að ekki má ráða börn sem eru í skyldunámi í vinnu. Á þeirri reglu eru þó undantekningar:

 • Börn má ráða til þátttöku í menningar- eða listviðburðum og íþrótta- eða auglýsingastarfsemi. Sá sem ræður börn sem ekki hafa náð 13 ára aldri verður að fá leyfi frá Vinnueftirlitinu áður en börnin eru ráðin í verkefnið. 
 • Börn sem eru 14 ára eða eldri má ráða til vinnu sem er hluti af fræðilegu eða verklegu námi. 
 • Börn sem náð hafa 14 ára aldri má ráða til léttari starfa og börn sem náð hafa 13 ára aldri má ráða til léttari starfa í takmarkaðan stundafjölda, svo sem léttari garðyrkju- og þjónustustörf eða önnur hliðstæð störf.

Í IV. viðauka reglugerðar um vinnu barna og unglinga er listi yfir störf af léttara taginu sem 13 ára og eldri mega vinna. Meðal þeirra er:

 • vinna í skólagörðum undir umsjón kennara, 
 • létt skrifstofustörf, 
 • létt fiskvinnslustörf án véla, 
 • sala dagblaða, 
 • létt verslunarstörf en þó ekki við afgreiðslukassa.

Þetta er ekki tæmandi talning á störfum og það er hlutverk Vinnueftirlitsins að meta hvort starf sé við hæfi barna yngri en 15 ára eða ekki.

Dæmi um störf sem börn yngri en 15 ára mega ekki vinna eru:

 • barnagæsla (nánar hér),
 • afgreiðsla á kassa í verslun.

Vinna unglinga 15–18 ára

Það má almennt ráða unglinga sem eru ekki lengur í skyldunámi í vinnu, nema um sé að ræða störf við eftirfarandi aðstæður:

 • Vinnu sem er of erfið fyrir þau líkamlega eða andlega. 
 • Vinnu sem líklega veldur varanlegu heilsutjóni. 
 • Vinnu þar sem hætta er á skaðlegri geislun. 
 • Vinnu þar sem fyrir hendi er slysahætta sem gera má ráð fyrir að börn og unglingar geti átti í erfiðleikum með að átta sig á eða forðast, t.d. vegna skorts á reynslu eða þjálfun. 
 • Vinnu sem felur í sér hættu fyrir heilsu þeirra vegna óvenjumikils kulda, hita, hávaða eða titrings. 
 • Vinnu þar sem hætta er á ofbeldi eða annarri sérstakri hættu, nema ungmennin starfi með fullorðnum.

Í reglugerð um vinnu barna og unglinga nr. 426/1999 er að finna í viðauka 1–3 lista yfir hættuleg tæki, verkefni, efni og störf þar sem óheimilt er að ráða unglinga í vinnu.

Börn undir 18 ára aldri mega ekki afgreiða tóbak og aðeins þeir sem náð hafa 20 ára aldri mega afgreiða áfengi. Sérstakar undanþágur gilda um framreiðslunema.

Vinnutími

Í lögum er fjallað um vinnutíma barna og unglinga og eru settar ákveðnar takmarkanir á hann. Takmarkanir miðast við þann tíma sem fer í vinnu, þ.e. vinnustundur að frádregnum matar- og kaffitímum. 

Almennar reglur um vinnutíma:

  Börn 13–14 ára Börn 15 ára í skyldunámi Unglingar 15–17 ára
Á starfstíma skóla 2 klst. á dag 
12 klst. á viku
2 klst. á dag 
12 klst. á viku
8 klst. á dag 
40 klst. á viku
Utan starfstíma skóla 7 klst. á dag 
35 klst. á viku
8 klst. á dag 
40 klst. á viku
8 klst. á dag 
40 klst. á viku
Vinna bönnuð kl. 20-6 kl. 20-6 kl. 22-6
Hvíld 14 klst. á sólarhr. 
2 dagar í viku
14 klst. á sólarhr. 
2 dagar í viku
12 klst. á sólarhr. 
2 dagar í viku 

Í algerum undantekningartilvikum má víkja frá þessum ákvæðum og þá á sérstökum starfssviðum og aðeins ef unglingar fá hæfilegan uppbótarhvíldartíma. Vinnueftirlitið hefur eftirlit með lögunum. Það er hægt að hringja í Vinnueftirlitið og benda á vinnustaði þar sem ekki er farið eftir þessum reglum eða fá ráðgjöf um það hvað er best að gera ef maður er ekki viss.

Stéttarfélög 

Stéttarfélag er félag sem á að gæta hagsmuna félagsmanna gagnvart atvinnurekendum. Réttur manna til að ganga í stéttarfélög telst til grundvallarmannréttinda.

Mjög mikilvægt er að börn og unglingar viti hvaða stéttarfélagi þau tilheyra og að dregin séu af launum þeirra félagsgjöld og staðið skil á þeim greiðslum til viðkomandi stéttarfélags. Aðild að stéttarfélagi er mjög mikilvæg því ýmis fríðindi og styrkir fylgja slíkri aðild og eins er hægt að leita til stéttarfélaga með ýmis hagsmuna- og réttindamál til að fá hjálp og leiðbeiningar.

Almennt er miðað við það í stéttarfélögum að fullgildir félagsmenn þurfi að hafa náð 16 ára aldri en að þeir sem yngri eru og fá laun samkvæmt kjarasamningum félagsins hafi stöðu aukafélaga. Fjallað er um stéttarfélög hér á síðu ASÍ.

Kjarasamningar

Kjarasamningur er samningur sem gerður er milli stéttarfélaga og atvinnurekenda eða samtaka þeirra og hefur að geyma mikilvæga þætti sem varða laun og önnur kjör. 

Kjarasamningar eru lágmarkssamningar og er því óheimilt fyrir vinnuveitanda að semja um lægri laun eða lakari kjör en starfsmaður á rétt á samkvæmt kjarasamningi. Það má samt alltaf semja um hærri laun eða betri kjör. 

Ráðningarsamningar

Milli starfsmanns og atvinnurekanda á alltaf að vera í gildi ráðningarsamningur þar sem starfsmaðurinn (þ.e. launamaðurinn) samþykkir að vinna fyrir atvinnurekandann sem á móti greiðir honum laun o.s.frv.

Rðningarsamningur getur verið annaðhvort munnlegur eða skriflegur. Öll sönnunaratriði eru miklu auðveldari ef gerður hefur verið skriflegur ráðningarsamningur þar sem m.a. kemur fram hvenær viðkomandi hóf störf, hver laun eru o.s.frv.

Samþykki foreldra/forsjáraðila þarf til að ráðningarsamningur barns undir 18 ára aldri sé skuldbindandi fyrir barnið að fullu. Ráðningarsamningur verður að vera í samræmi við kjarasamning. Það þýðir að ef vinnuveitandi vill setja atriði í ráðningarsamnig sem veita barninu verri kjör en samið hefur verið um í kjarasamningum þá gildir það atriði ráðningarsamningsins ekki.

Mikilvægt er að eftirfarandi atriði komi fram í ráðningarsamningi: 

 • Dagsetning, nöfn aðila, heimilisföng, kennitala. 
 • Menntun, starfsreynsla, áunnin réttindi frá fyrri atvinnurekanda. 
 • Starfsheiti, hæfniskröfur, starfslýsing, þagnarskylda,
 • Starfstími, upphaf, lengd, reynslutími, hvort ráðning er tímabundin. 
 • Vinnutími, hvort vinnutími er sveigjanlegur, aukahelgidagar.
 • Skipunarvald, undir stjórn hvers unnið er, þagnarskylda. 
 • Laun, föst laun, launabreytingar, hvernig yfirvinna er reiknuð, álagstímabil, yfirborgun, hlunnindi, bílapeningar. 
 • Gjalddagi launa og greiðslufyrirkomulag. 
 • Orlof, hvernig með skuli fara á fyrsta ári, ákvörðun um orlof. 
 • Reglur um tilkynningar á veikindum eða öðrum vinnuhindrunum, hvenær þörf er á læknisvottorði. 
 • Lífeyrissjóður og stéttarfélag. 
 • Samningsslit, uppsagnarfrestur, reglur um skriflega uppsögn. 
 • Tilvísun í lög og kjarasamninga.

Hér á vef stéttafélagsins Eflingar er dæmi um ráðningarsamning.

Sérstakar reglur gilda um ráðningarsamninga milli iðnnema og iðnfyrirtækis eða iðnmeistara. Menntamálaráðuneytið leggur til sérstök eyðublöð undir námssamninginn.

Skattur

Sérstakar reglur gilda um skattgreiðslur barna 15 ára og yngri en þegar börn verða 16 ára greiða þau skatt eftir almennum reglum og byrja einnig að greiða í lífeyrissjóð. Eftirfarandi reglur gilda um skatt- og lífeyrisgreiðslur barna og unglinga.

 • Börn 15 ára og yngri greiða 6% tekjuskatt ef laun þeirra fara yfir ákveðið frítekjumark. 
 • Börn fá skattkort í byrjun þess árs sem þau verða 16 ára og fara að greiða skatta eftir sömu reglum og fullorðnir, þ.e. reiknuð er staðgreiðsla af launum og frá henni dreginn persónuafsláttur.
 • Börn byrja að greiða í lífeyrissjóð næstu mánaðamót eftir 16 ára afmælisdaginn.

Upplýsingar um skattamál er að finna á www.rsk.is

Launamenn / verktakar

Þó að það sé ekkert í lögum sem beinlínis bannar það að börn gerist verktakar mega börn ekki skrá sig sem verktaka samkvæmt reglum ríkisskattstjóra. Réttarstaða verktaka er mjög ólík réttarstöðu launamanns og þar sem börn eiga rétt á meiri vernd en fullorðnir er talið rétt að þau geti ekki gerst verktakar.

 • Verktakar njóta ekki þeirra lágmarkskjara sem samið er um á vinnumarkaði.
 • Verktakar fá ekki laun fyrir viðurkennda frídaga.
 • Verktakar fá ekki greitt orlof, desemberuppbót eða orlofsuppbót.
 • Verktakar eiga ekki rétt á launum í veikindatilfellum og eru ekki slysatryggðir.
 • Verktakar þurfa sjálfir að standa skil á 10% launa til lífeyrissjóðs.

Best er að leita eftir ráðgjöf hjá ríkisskattstjóra þegar kemur að álitamálum varðandi ráðningarsamband barns  og atvinnurekanda.

Algeng störf barna og unglinga

Vinnuskólinn

Í flestum sveitarfélögum landsins er starfræktur vinnuskóli fyrir 13-15 ára börn á sumrin. 

Margir unglingar taka sín fyrstu skref á vinnumarkaðinum í vinnuskólanum. Almennar reglur um vinnu barna og unglinga eiga að sjálfsögðu við um vinnu á vegum vinnuskóla sveitarfélaga. Auk þess er fjallað um slík störf í VI. kafla reglugerðar um vinnu barna og unglinga. Þar kemur m.a. fram ákveðin takmörkun á því hvers konar störf unglingar á mismunandi aldri mega vinna og fylgir upptalning á þeim störfum í viðaukum með reglugerðinni. 

Vinna í verslun og þjónustu

Í dag er orðið mjög algengt að unglingar vinni í verslunum og við ýmis þjónustustörf. Verslanir eru oft opnar lengi og í ýmsum þjónustustörfum, s.s. á veitingastöðum og hótelum er opið fram á nótt. Mikilvægt er að fylgst sé vel með því að farið sé eftir reglum um leyfilegan vinnutíma barna og unglinga í þessum störfum og eins reglum um lágmarkshvíld og rétti til hlés á vinnu en þær reglur er að finna hér að ofan.

Fram kemur í viðauka IV. sem fylgir reglugerð um vinnu barna og unglinga að 13 og 14 ára unglingar megi vinna létt störf í sérverslun og stórmörkuðum en undanskilin er vinna við greiðslukassa. Unglingar verða því að vera orðnir 15 ára svo að þeir megi vinna á kassa í verslun. Einnig er mikilvægt að benda á að börn og unglingar undir 18 ára aldri mega ekki afgreiða tóbak og áfengi.

Barnagæsla 

Eitt algengasta starf barna og unglinga í gegnum tíðina hefur verið barnagæsla. Í IV. viðauka reglugerðar um vinnu barna og unglinga er barnagæsla ekki meðal þeirra starfa sem talin eru upp sem störf af léttara taginu sem 13 og 14 ára börn mega vinna og hafa því vaknað spurningar við hvaða aldursmark skuli miða. Það að bera ábyrgð á lífi og líðan lítilla barna er mjög ábyrgðarmikið starf sem getur valdið þeim sem ekki eru búnir að taka út fullan þroska of miklu andlegu álagi. Komi eitthvað fyrir barnið er ábyrgðin gífurleg. Slys á heimilum eru meðal algengustu slysa á Íslandi og verða þau flest í aldurshópnum 0-4 ára. Í samræmi við þetta telur Vinnueftirlitið að barnagæsla geti ekki talist starf af léttara taginu og því sé ekki heimilt að ráða yngri en 15 ára til að starfa við barnagæslu, sjá nánar hér.

Skyldur atvinnurekanda

Atvinnurekendur bera miklar skyldur við börn sem þeir ráða í vinnu. Þessar skyldur koma til viðbótar þeim almennu skyldum sem atvinnurekendur bera gagnvart öllum launþegum.

Atvinnurekandi á t.d. að tryggja börnum og unglingum öryggi og heilbrigði á vinnustað, gæta þess að ungmennin fái fullnægjandi kennslu og leiðbeiningar þannig að vinnan sé ekki hættuleg eða heilsuspillandi. Vinnan skal fara fram undir eftirliti einstaklings sem orðinn er 18 ára og hefur nægilega innsýn í eðli starfsins. Þá ber atvinnurekanda að kynna foreldrum eða forsjáraðilum barna hugsanlega áhættu í starfi og allar ráðstafanir sem gerðar eru til að tryggja öryggi þeirra.

Eftirlit foreldra

Foreldrar hafa ákveðið eftirlits- og leiðbeiningarhlutverk þegar börn og ungmenni ráða sig í vinnu. Foreldrar eiga til dæmis að kynna börnum sínum réttindi á vinnumarkaði áður en sótt er um starf.

Samþykki foreldra/forsjáraðila þarf til að ráðningasamningur barns undir 18 ára aldri sé skuldbindandi fyrir barnið. Æskilegt er að foreldrar fari svo yfir launaseðla með börnum sínum og kenni þeim að lesa úr þeim og kanni jafnframt hvort ekki sé allt með felldu.

Ráðgjöf á netinu

Ef þig vantar ráðgjöf fagfólks vill umboðsmaður barna mæla með þessum síðum:

www.vinnueftirlit.is. Vinnueftirlitið  hefur eftirlit með lögum nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og reglugerð nr. 426/1999 um vinnu barna og unglinga. Hér á vef Vinnueftirlitsins er að finna upplýsingar og fræðsluefni um vinnu barna og unglinga.

 www.rsk.is. Á vef ríkisskattstjóra eru upplýsingar um tekjuskatt, útsvar og fleira sem gott er að vita.

www.asi.is.  Alþýðusamband Íslands. Smelltu hér ef þú vilt shorfa á kynningu um  réttindi og skyldur á vinnumarkaði.

www.vrskolilifsins.is. VR skóli lífsins býður upp á fræðslu, m.a. með myndböndum, um ýmislegt sem maður þarf að vita þegar maður ætlar að fara út á vinnumarkaðinn.

www.efling.is. Efling er eitt af stærstu stéttarfélögum landsins. Hægt er að hringa í Eflingu og biðja um ráðgjöf um réttindi og skyldur á vinnumarkaði.

www.attavitinn.is. (Áttavitinn og Tótalráðgjöf). Smelltu hér ef þú vilt spyrja ráðgjafa Tótalráðgjafarinnar um eitthvað.

Vantar svör?

Vantar þig svör? Sendu þá fyrirspurn eða skoðaðu spurningar og svör um hér.

Miklu nákvæmari texti og meiri upplýsingar um vinnu er að finna hér á aðalsíðu umboðsmanns barna.


Öllum er heimilt að nota efni af vef umboðsmanns barna svo framarlega að vísað sé í heimild.
Ábendingar um efni sem á heima á þessari síðu eru vel þegnar. Vinsamlegast sendið tillögur til vefstjóra.