English Danish Russian Thai Polish

Réttindi og ráðgjöf

Vímuefni

Gott að hafa í huga

Vímuefni valda ýmiss konar vanda. Áfengi og önnur vímuefni koma mikið við sögu í ýmsum félagslegum vandamálum, upplausn fjölskyldna, fjárhagserfiðleikum, slysum og stórum hluta ofbeldismála og afbrota. Vímuefnaneysla barna og unglinga getur ógnað velferð þeirra og framtíð. Þetta eru staðreyndir sem mikilvægt er að hafa í huga.

Vímuefni eru mjög skaðleg og hafa slæm áhrif á líkamsstarfsemi, hæfni og þroska barna. Neysla vímuefna raskar og truflar starfsemi líffæra þannig að breyting verður á skynjun, tilfinningum og skapi. Áhrif vímuefna á andlega og líkamlega færni eru mikil. Þunglyndi, geðræn vandamál, áhrif á minni sem bitnar á námshæfni og heilaskemmdir eru algengir fylgifiskar neyslu vímuefna.

Því fyrr sem börn byrja að neyta vímuefna aukast líkurnar á því að þau verði háð þeim, detti úr skóla, einangrist félagslega, fái sjúkdóma, lendi í slysum og óæskilegri kynlífsreynslu. Ýmis áhrif vímuefna á líkamsstarfsemina geta verið varanleg og lagast ekki þó að neyslunni sé hætt.

Foreldrar bera ábyrgð á uppeldi og velferð barna sinna til 18 ára aldurs og er það bæði réttur þeirra og skylda að gera allt til að forða þeim frá vímuefnum.  Börn eiga rétt á vímulausu umhverfi.

Lög og reglur um vímuefni

Samfélagið setur þegnum sínum ýmsar reglur sem ætlast er til að farið sé eftir. Börn og unglingar mega ekki drekka áfengi. Það  er bannað að selja, veita eða afhenta áfengi þeim sem er yngri en 20 ára og hvers konar auglýsingar á áfengi og einstökum áfengistegundum eru bannaðar. Hér er verið að meina allar tegundir vökva sem er með 2,25%  eða meira af hreinum vínanda, svo sem bjór, léttvín, sterk vín og blandað áfengi.

Börn yngri en 18 ára mega ekki vera á veitingastað sem hefur leyfi til áfengisveitinga eftir kl. 22 á kvöldin, nema í fylgd með foreldrum eða  öðrum forsjáraðilum sem eru eldri en 18 ára.

Tóbak má hvorki selja né afhenda þeim sem er yngri en 18 ára. Börn mega því ekki nota tóbak. Hér er verið að meina sígarettur, vindla, píputóbak, munntóbak, neftóbak og allt annað tóbak.

Ýmis lyf sem læknar ávísa til sjúklinga sinna eru því miður stundum notuð af þeim sem ekki eiga að nota þau. Misnotkun á  læknadópi" og öðrum efnum  er alveg jafn alvarleg og neysla ólöglegra vímuefna.

Önnur ávana- og fíkniefni eru ólögleg og er því bannað að neyta þeirra. Refsivert er að kaupa efnin, selja þau, taka við þeim, hafa í vörslu sinni og afhenda þau. Það er líka ólöglegt að geyma fíkniefni, þótt það sé fyrir einhvern annan en sig sjálfan. Kannabis er líka ólöglegt enda hefur notkun þess mjög skaðleg áhrif á þann sem neytir þess.

Hvernig er best að forðast vímuefni?

Þegar kemur að notkun vímuefna eru öll börn í áhættu. Stærsti markhópur fíkniefnasala eru unglingar og ungt fólk og margir unglingar finna fyrir miklum þrýstingi að drekka áfengi, nota tóbak eða neyta ólöglegra vímuefna. Forvarnir eru því sérstaklega mikilvægar fyrir þennan hóp en einnig þá sem yngri eru. Stutt reynsla af lífinu, ómótuð sjálfsmynd og óöryggi þar af leiðandi getur gert börnum og unglingum erfitt með að þola hópþrýsting og standa við sannfæringu sína. Góðar fyrirmyndir, upplýsingar um skaðsemi fíkniefna og áhersla á heilbrigt líferni og sjálfsvirðingu eru dæmi um forvarnarstarf sem unnið er að á mörgum sviðum. Gott er að hafa eftirfarandi atriði í huga:

 • Taktu ábyrgð á sjálfum/sjálfri þér og hugsaðu málið út frá þínum forsendum. Þeir sem  trúa á sjálfa sig eru líklegri til að standast hópþrýsting og taka skynsamlegar ákvarðanir.
 • Treystu foreldrum þínum til að ræða málin í hreinskilni og ráðleggja þér í þessum málum sem öðrum.
 • Veldu þér trausta vini sem vilja þér vel.
 • Finndu áhugamál sem hentar þér. Allir geta verið góðir í eða haft gaman af einhverju.
 • Temdu þér jákvæðan lífsstíl og hugsaðu um heilsuna. Þótt hún sé í fínu lagi núna er samt mikilvægt að hugsa til framtíðar.
 • Leitaðu upplýsinga um vímuefni og áhrif þeirra frá ábyrgum aðilum, sjá t.d. nokkra hér að neðan, þar sem  upplýsingar um vímuefni á netinu eru í mörgum tilfellum rangar eða óljósar. Upplýsingar um vímuefni, áhrif þeirra og fjölda vímuefnaneytenda geta stundum brenglast þegar þeim er miðlað á milli ungmenna auk þess sem fíkniefnasalar og -neytendur veita oft beinlínis rangar eða villandi upplýsingar um þessi efni til að plata ungt fólk til að prófa. 
 • Láttu starfsfólk skólans vita ef þig grunar að skólafélagi sé farinn að neyta vímuefna. Ef einhver í fjölskyldunni þinni eða þú sjálf(ur) átt í vímuefnavanda skaltu ekki hika við að leita ráða hjá umsjónarkennara, námsráðgjafa, skólahjúkrunarfræðingnum eða öðrum þeim sem þú treystir af starfsfólki skólans.

Vísbendingar um vímuefnaneyslu

Ef þú telur að einhver nákomin(n) þér sé farinn að neyta vímuefna og þannig farin(n) að skaða sjálfa(n) sig er gott að hafa helstu einkenni um vímuefnaneyslu barns eða unglings í huga:

 • Breytingar á viðhorfum og útliti.
 • Breytingar á lífsstíl. Barnið/unglingurinn fer að vera lengur úti á kvöldin og jafnvel langt fram á nótt.
 • Kunningjahópurinn breytist og jafnvel reynt að halda leyndu hverjir kunningjarnir eru.
 • Tilhneiging til einangrunar. Barnið/unglingurinn verður fáskiptinn og lokar sig inni í herbergi.
 • Samband við foreldra versnar og áhugi á fjölskyldunni minnkar. Ágreiningur og árekstrar við foreldra aukast og barnið svíkur gefin loforð.
 • Sljóleiki og minnisleysi gerir vart við sig.
 • Hreinlæti minnkar.
 • Skólasókn minnkar og námsárangur versnar.
 • Illa mætt í vinnu og logið til um ástæður þegar forföll eru boðuð.
 • Áhugamálum illa sinnt.
 • Þol gagnvart álagi minnkar og barnið/unglingurinn bregst við með skapofsa og ofsafengnum viðbrögðum af litlu tilefni.
 • Peningar (jafnvel hlutir) fara að hverfa af heimilinu og frá nákomnum. Viðkomandi verður uppvís að svikum og tvöfeldni.
 • Lögreglan hefur afskipti af barninu/unglingnum vegna óreglu og afbrota.

Ástæður einkennanna geta að sjálfsögðu líka verið aðrar og meinlausari en neysla vímuefna. Álag, áföll, ofbeldi og vanlíðan geta t.d. líka haft ofangreind einkenni en þá er mikilvægt að bregðast við og hjálpa barninu.

Ef barn byrjar að nota vímuefni

Börn og unglingar sem nota vímuefni eru að stefna eigin velferð í verulega hættu. Þegar börn leiðast út í vímuefnaneyslu er áherslan lögð á aðstoð og meðferð frekar en refsingu. Refsingum er frekar beint að þeim sem selja og dreifa ólöglegum efnum eða þeirra sem selja eða gefa börnum áfengi eða tóbak. Þetta tvennt getur að sjálfsögðu farið saman og þá er beitt refsingum og jafnframt boðið upp á ráðgjöf og meðferð.

Meðferð og barnavernd

Barn eða unglingur sem byrja er misnota áfengi eða tóbak eða eru orðin háð fíkniefnum þurfa á aðstoð samfélagsins að halda og því ber að tilkynna um neyslu þeirra til barnaverndar. Til að barnaverndin geti aðstoðað börnin þarf þeim að berast tilkynning um að barn búi við óviðunandi aðstæður eða að það stefni sjálfu sér í hættu, t.d. með notkun vímuefna. Barnaverndarnefnd og Barnaverndarstofa geta komið ungum fíklum í meðferð á meðferðarheimili í lengri eða skemmri tíma. Nánari upplýsingar er að finna hér.

Ráðgjöf og aðstoð fagfólks

Ef þú ert að leita upplýsinga um vímuefni er heilmikið af fræðsluefní boði. Best er að leita upplýsinga og ráða hjá fagfólki, eins og t.d. læknum, hjúkrunarfræðingum, sálfræðingum eða félagsráðgjöfum. Ef þú eða einhver sem þú þekkir er í vandræðum vegna vímuefnanotkunar getur þú leitað til eftirtalinna aðila til að fá ráðgjöf og stuðning.

www.6h.is
Hér er fullt af upplýsingum um áfengi, tóbak og önnur vímuefni, hugrekki og félagslegan þrýsting. Smelltu hér ef þú vilt spyrja hjúkrunarfræðing um heilsu og líðan.

Áttavitinn - Tótalráðgjöfin 
Áttavitinn og Tótalráðgjöf eru með vefinn www.attavitinn.isSmelltu hér ef þú ert orðinn 16 ára og vilt spyrja ráðgjafa Tótalráðgjafarinnar um eitthvað.

Barnaverndin
Barn sem byrjað er að misnota áfengi eða tóbak eða er orðið háð fíkniefnum þarf á aðstoð samfélagsins að halda. Einfaldast er að hringja í 1–1–2 og bera upp erindið við starfsmann Neyðarlínunnar sem kemur skilaboðum áleiðis eða gefur samband við réttan aðila. Það er líka hægt að hafa samband við barnaverndarnefnd eða starfsmann hennar í viðkomandi sveitarfélagi. Hér er listi yfir barnaverndarnefndir landsins og upplýsingar um hvernig er best að ná í starfsmenn þeirra.

Landlæknisembættið
Á  www.landlaeknir.is, er að finna  upplýsingar um áfengis- og vímuvarnir.

Fræðslumiðstöð í fíknivörnum
Miðstöðinni er ætlað að afla upplýsinga um fíkniefnamál, starfrækja gagnasafn, veita fræðslu og upplýsingar um fíkniefnamál og veita ráðgjöf í fíknivörnum. Vefurinn er www.forvarnir.is.

SÁÁ — Samtök áhugafólks um áfengisvandann
Á vefnum www.saa.is, undir fræðsluefni, er m.a. að finna upplýsingar um áfengi, kannabis, róandi ávanalyf, ofskynjunarefni, sveppi, stera, spilafíkn og ýmis vímuefni. Hér eru upplýsingar um meðferðarúrræði og aðstoð sem er í boði fyrir alkóhólista, aðstandendur og spilafíkla.

Hjálparsími Rauða krossins, 1717
Hjálparsíminn 1717 er gjaldfrjáls og er opinn allan sólarhringinn fyrir þá sem vilja tala við einhvern og þurfa aðstoð vegna depurðar, kvíða eða þunglyndis sem geta verið fylgifiskar vímuefna. Heimasíða Rauða krossins er www.redcross.is. Hér er að finna nánari upplýsingar um hjálparsímann.

Neyðarlínan
Sé barn slasað, mjög veikt eða á einhvern hátt illa haldið eftir neyslu vímuefna ætti hiklaust að hafa samband við Neyðarlínuna með því að hringja í 1–1–2.

Aðstoð í boði nálægt þér

Umboðsmaður barna vill sérstaklega benda á að börn og unglingar eiga alltaf að geta leitað til þessara aðila til að fá upplýsingar, ráðgjöf og aðstoð:

 • Grunnskólanemendur geta leitað til umsjónarkennarans síns. Umsjónarkennarar eiga að aðstoða nemendur við að leysa úr persónulegum málum sem og námslegum. Þeir geta líka vísað nemendum á fagfólk innan skólans, eins og t.d. skólahjúkrunarfræðinginn eða námsráðgjafann. Nemendur geta að sjálfsögðu líka leitað sjálfir til hjúkrunarfræðingsins eða námsráðgjafans. Sumir skólar eru líka með skólafélagsráðgjafa.
 • Starfsfólk félagsmiðstöðvanna er bundið trúnaði og mörgum finnst mjög gott að ræða málið við það. 
 • Framhaldsskólanemar geta leitað til námsráðgjafans í skólanum sínum. Einnig hafa flestir framhaldsskólanemar umsjónarkennara sem þeir geta leitað til. 
 • Margir leita til presta til að ræða persónuleg mál — enda eru prestar bundnir trúnaði. Jafnvel þótt þú þekkir prestinn „þinn” ekki neitt getur þú alltaf leitað í kirkjuna.
 • Krakkar geta leitað til heilsugæslustöðvanna með alls konar spurningar og vandamál sem tengjast heilsu og líðan. Hérna á vef landlæknis er hægt að leita að heilsugæslustöðvum um allt land og fá nánari upplýsingar um þær.  
 • Mörg sveitarfélög bjóða íbúum sínum upp á fjölskylduráðgjöf. Þangað geta börn leitað til að ræða og fá lausn á vandamálum sínum. Hér er listi yfir öll sveitarfélög landsins. Með því að smella á sveitarfélagið þitt kemst þú inn á heimasíðu þess. Hafðu samband við sveitarfélagið þitt til að fá upplýsingar um fjölskylduþjónustuna. 
 • 1717 er hjálparsími Rauða krossins. Hann er opinn allan sólarhringinn og það kostar ekkert að hringja í hann. Ef þér líður illa eða finnst lífið vera tilgangslaust skaltu ekki hika við að hringja í hjálparsímann.

Vantar svör?

Vantar þig svör? Sendu þá fyrirspurn eða skoðaðu spurningar og svör hér.

Miklu ítarlegri upplýsingar og tenglar á lög og reglur um vímuefni má finna hér á aðalsíðu umboðsmanns barna.