English Danish Russian Thai Polish

Réttindi og ráðgjöf

Sorg, missir og áföll

Fullordinn Hjalpar

Gott að hafa í huga

Sorg og áföll eru hluti af lífinu. Öll þurfum við fyrr eða síðar eða kljást við sorg og komast í gegnum hana. Því miður fá sum börn þetta mikla verkefni upp í hendurnar allt of snemma. Ástæður þess að maður finnur fyrir sorg eða missi geta verið margar, t.d. ef einhver sem manni þykir vænt um verður alvarlega veikur, lendir í slysi eða deyr. Skilnaður eða sambúðarslit foreldra, það að verða fyrir ofbeldi eða búa við ofbeldi eða mikið álag getur líka haft þær afleiðingar að maður finnur fyrir missi og einkennum áfalls.

Öll viðbrögð við áföllum eru eðlileg. Maður getur fundið fyrir sorg, reiði, efa, sektarkennd, athyglisþörf, ótta við að vera ein(n), svefntruflunum, lítilli matarlyst og alls konar verkjum í líkamanum, skjálfta og ógleði. Sumir vilja flýja inn í ímyndaðan heim á meðan aðrir finna fyrir létti. Þetta er allt saman alveg eðlilegt

Viðbrögð barns við áföllum og álagi fara að miklu leyti eftir því hvernig fyrirmyndir þeirra, t.d. foreldrarnir, bregðast við erfiðleikum, hvort sem þeir takast á við vandann eða flýja hann. Börn og unglingar bregðast því við missi, áföllum og öðrum erfiðleikum á svipaðan hátt og fullorðnir þó að þau noti stundum aðrar aðferðir til að tjá sig, t.d. leik. Þó að missir sé erfið lífsreynsla og söknuðurinn verði áfram til staðar er samt sem áður hægt að lifa með sorginni. Það verður auðveldara með tímanum.

Börn og unglingar, sérstaklega þau sem eiga í erfiðleikum með að tjá sorg sína, geta þó upplifað þunglyndiseinkenni. Sumir missa áhugann á námi, áhugamálum eða samveru með vinum og fjölskyldu.

Sum börn sem missa ástvin eða þurfa að fylgja einhverjum nákomnum í gegnum erfitt ferli eins og alvarleg veikindi þróa með sér betri aðferðir til að taka áföllum síðar meir í lífinu og eru oft þroskaðri en jafnaldrar þeirra. Önnur geta lent í sálrænum erfiðleikum síðar á lífsleiðinni.

Í einstaka tilfellum fara börn að kenna sjálfum sér um þegar einhver nákominn deyr, foreldrar skilja eða eitthvað annað erfitt gerist. Það er mikill misskilningur.

Það er gott að hafa í huga að þó að eitthvað mjög erfitt hafi komið fyrir sem manni líður mjög illa útaf er allt í lagi að gleyma sér stundum, leika sér og hafa gaman.

Réttindi barna þegar þau verða fyrir áföllum

Börn þurfa að hafa aðgang að einhverjum sem hlustar og er tilbúinn að ræða málin þegar þau finna þörf fyrir að tala eða spyrja. Börn eiga rétt á upplýsingum um mál sem varða þau persónulega. Best er að þau þurfi ekki að upplifa mikla óvissu. Barn getur t.d. beðið foreldra sína að setjast niður með sér til að ræða um það sem hefur átt sér stað og hverju það mun breyta í framtíðinni. Ef foreldrarnir geta af einhverjum ástæðum ekki sinnt þessu er mikilvægt að einhver annar fullorðinn geti veitt upplýsingar, öryggi og skjól.

Þegar börn vilja ræða um eitthvað sem tengist áfalli eiga þau að fá að spyrja og tjá sig eins oft og mikið og þau vilja. Það er alveg eðlilegt og ekkert til að skammast sín fyrir.

Miklu máli skiptir að börn og unglingar fái nægan tíma til að syrgja eða aðlagast aftur eftir áföll og erfiðleika. Sumir virðast jafna sig fljótt en aðrir þurfa lengri tíma. Auðvitað er best að fjölskyldan takist á við sorg og áföll saman, t.d. með því að tala saman, gráta saman, rifja upp saman og þiggja stuðning og umhyggju. Góðir vinir eða aðrir sem hafa svipaða reynslu geta líka hjálpað.

Ráðgjöf á netinu

Ef þig vantar ráðgjöf fagfólks vill umboðsmaður barna mæla með þessum síðum:

Ný dögun eru samtök um sorg og sorgarviðbrögð. Smelltu hér til að skoða.

www.6h.is.  Smelltu hér ef þú vilt spyrja hjúkrunarfræðing um heilsu og líðan.

www.attavitinn.is. (Áttavitinn og Tótalráðgjöf). Smelltu hér ef þú ert orðinn 16 ára og vilt spyrja ráðgjafa Tótalráðgjafarinnar um eitthvað.

Aðstoð í boði nálægt þér

Umboðsmaður barna vill sérstaklega benda á að börn og unglingar eiga alltaf að geta leitað til þessara aðila til að fá upplýsingar, ráðgjöf og aðstoð:

  • Grunnskólanemendur geta leitað til umsjónarkennarans síns. Umsjónarkennarar eiga að aðstoða nemendur við að leysa úr persónulegum málum sem og námslegum. Þeir geta líka vísað nemendum á fagfólk innan skólans, eins og t.d. skólahjúkrunarfræðinginn eða námsráðgjafann. Nemendur geta að sjálfsögðu líka leitað sjálfir til hjúkrunarfræðingsins eða námsráðgjafans. Sumir skólar eru líka með skólafélagsráðgjafa.
  • Starfsfólk félagsmiðstöðvanna er bundið trúnaði og mörgum finnst mjög gott að ræða málið við það. 
  • Framhaldsskólanemar geta leitað til námsráðgjafans í skólanum sínum. Einnig hafa flestir framhaldsskólanemar umsjónarkennara sem þeir geta leitað til. 
  • Margir leita til presta til að ræða persónuleg mál — enda eru prestar bundnir trúnaði. Jafnvel þótt þú þekkir prestinn „þinn” ekki neitt getur þú alltaf leitað í kirkjuna.
  • Krakkar geta leitað til heilsugæslustöðvanna með alls konar spurningar og vandamál sem tengjast heilsu og líðan. Hérna á vef landlæknis er hægt að leita að heilsugæslustöðvum um allt land og fá nánari upplýsingar um þær.  
  • Mörg sveitarfélög bjóða íbúum sínum upp á fjölskylduráðgjöf. Þangað geta börn leitað til að ræða og fá lausn á vandamálum sínum. Hér er listi yfir öll sveitarfélög landsins. Með því að smella á sveitarfélagið þitt kemst þú inn á heimasíðu þess. Hafðu samband við sveitarfélagið þitt til að fá upplýsingar um fjölskylduþjónustuna. 
  • 1717 er hjálparsími Rauða krossins. Hann er opinn allan sólarhringinn og það kostar ekkert að hringja í hann. Ef þér líður illa eða finnst lífið vera tilgangslaust skaltu ekki hika við að hringja í hjálparsímann.

Vantar svör?

Vantar þig svör? Sendu þá fyrirspurn hér.


Öllum er heimilt að nota efni af vef umboðsmanns barna svo framarlega að vísað sé í heimild.
Ábendingar um efni sem á heima á þessari síðu eru vel þegnar. Vinsamlegast sendið tillögur til vefstjóra.