English Danish Russian Thai Polish

Réttindi og ráðgjöf

Erfiðleikar í skólanum

teiknuð mynd af börnum leysa stærðfræðidæmi á töfluGott að hafa í huga

Allir geta átt í einhverjum erfiðleikum í skólanum, ýmist tímabundið eða til lengri tíma. Ástæðurnar geta t.d. verið áföll, fötlun, hegðunar- eða geðraskanir, námsörðugleikar, slys eða erfiðar heimilisaðstæður. Ef manni líður illa heima hjá sér getur það haft áhrif á líðan og árangur í skólanum. Einnig eru margir sem eiga erfitt með að skipuleggja tíma sinn og aðrir sem hafa einfaldlega allt of mikið að gera, t.d. vegna frístundaiðkunar og vinnu.

Það er eðlilegt að þurfa stundum að fást við vandamál og áhyggjur og að takast á við erfiðleikana getur verið þroskandi. Það er sjálfsagt og eðlilegt að leita sér upplýsinga, stuðnings og aðstoðar. Starfsfólk skólans leiðbeinir nemendum og foreldrum um hvaða leiðir er best að fara en oft finnur nemandinn sjálfur lausn á vandanum eftir að hafa rætt málin við starfsfólk skólans, t.d. umsjónarkennara, náms- og starfsráðgjafa, hjúkrunarfræðing, deildarstjóra eða einhvern annan sem hann treystir.

Erfið samskipti við starfsfólk

Ef nemanda finnst framkoma kennara ekki góð er best að ræða málin fyrst heima og síðan er best að láta skólastjórnendur eða annað starfsfólk skólans vita af því. Ef það reynist ekki vel má leita til næsta stjórnsýslustigs sem er skólanefnd/sveitarstjórn (Skóla- og frístundaráð í Reykjavík). Í stærri bæjum starfar skólaskrifstofa (Skóla- og frístundasvið í Reykjavík) í umboði skólanefndar/sveitarstjórnar.

Jafnframt því sem gott er að ræða málin við skólastjórnendur er mikilvægt að börn og unglingar ræði við foreldra sína ef þeim finnst þau ekki fá sanngjarna meðferð í skólanum. Best gengur að leysa úr erfiðleikum nemanda í skólanum ef heimilið og skólinn vinna saman. Þess vegna eru góð og regluleg samskipti heimilis og skóla mjög mikilvæg fyrir velferð barna og unglinga.

Fáir vinir

Einstaklingar eru missterkir félagslega og hafa mismikla þörf fyrir félagsskap. Sumir eiga mjög auðvelt með að eignast vini en aðrir ekki. Starfsfólk skólans getur leiðbeint þeim nemendum sem eiga í erfiðleikum með að eignast félaga í skólanum. Einnig geta nemendur sem lent hafa í samskiptavanda sín á milli leitað til starfsfólks skólans til að finna lausn á vandanum.

Mikilvægt er að viðurkenna að einelti á sér stað í skólum, óháð stærð og staðsetningu. Þó að meirihluti nemenda eigi ekki beina aðild að einelti veit þessi hópur oft af eineltinu löngu áður en hinir fullorðnu fá vitneskju um það. Mikilvægt er þessi hópur „hlutlausra áhorfenda“ taki afstöðu gegn einelti í verki og segi starfsfólki skólans frá því hvað er í gangi.

Samkvæmt Aðalnámskrá grunnskóla og framhaldsskóla verður í hverjum skóla að vera til áætlun um hvernig skuli brugðist við ef upp kemst um einelti í skólanum og öllum aðilum þarf að vera ljóst hver vinnur með slík mál innan skólans og hvernig. Skoðaðu eineltisáætlunina í þínum skóla. Hún ætti að vera aðgengileg á vef skólans.

Ef illa gengur að finna lausn á eineltismáli geta foreldrar haft samband við verkefnastjórn um aðgerðir gegn einelti eða fagráð eineltismála í grunnskólum, sjá nánar hér

Algengar spurningar

Má starfsfólk skóla taka eigur af börnum?

Í sumum skólum eru reglur um það að starfsfólk skóla megi taka eignir nemenda, svo sem síma eða bolta, af nemendum til að halda uppi aga. Yfirleitt mega nemendur sækja þessa muni í lok skóladags en stundum þurfa foreldrar að koma í skólann til að sækja þessar eigur barna sinna. Margir hafa velt því fyrir sér hvort þetta megi.

Börn njóta eignarréttar eins og aðrir. Hvorki í lögum um grunnskóla né reglugerðum er að finna heimildi grunnskóla til að taka eignir af nemendum. Það þýðir að kennurum eða öðrum er almennt óheimilt að taka eignir nemenda, nema um sé að ræða muni sem geta stefnt þeim sjálfum eða öðrum í hættu.

Nemendur í grunnskólum verða að fylgja skólareglum og fyrirmælum kennara og annars starfsfólks,  eins og meðal annars kemur fram í 14. gr. laga um grunnskóla og 4. gr. reglugerð um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins. Ef nemandi virðir ekki skólareglur eða fer ekki eftir fyrirmælum starfsmanns skólans er heimilt að bregðast við í samræmi við skólareglur. Þannig gæti kennari til dæmis byrjað á því að áminna nemanda en ef það dugar ekki til er hægt að vísa honum úr kennslustund eða senda hann til skólastjóra. Þegar um er að ræða hegðun sem getur valdið öðrum skaða eða eignatjóni getur starfsfólk þó brugðist við á grundvelli neyðarréttar, til dæmis með því að taka bolta eða aðrar eignir af nemendum. Þegar brugðist er við broti nemanda þarf alltaf að gæta meðalhófs, en það þýðir meðal annars að velja verður vægasta úrræðið sem kemur til greina.

Í þeim tilvikum sem skólar hafa talið nauðsynlegt að fjarlægja eignir nemanda ber þeim að skila þeim til  baka eins fljótt og hægt er. Að mati umboðsmanns barna er ekki rétt að gera kröfu um að foreldrar sæki eignir nemanda, enda eiga börn sjálfstæðan eignarétt. Ef brot nemanda er alvarlegt eða ítrekað getur skóli hins vegar ákveðið að kalla foreldra á fund til þess að ræða hegðun nemanda og hafa samráð við þá um hvernig best er að stuðla að bættri hegðun. 

Hvað geri ég ef kennari eða annað starfsfólk grunnskólans kemur illa fram við nemendur og gerir lítið úr þeim?

Ef starfsmaður skóla kemur illa fram við nemendur er mikilvægt að foreldrar viti af því. Bæði nemendur og foreldrar geta svo komið kvörtunum á framfæri við skólann og í framhaldi við skólanefnd í sveitarfélaginu ef illa gengur að bæta framkomu innan skólans. Í svona tilvikum getur líka verið gott að láta einhvern starfsmann skólans sem þú treystir vita, t.d. námsráðgjafa, umsjónarkennara eða aðstoðarskólastjóra. Ef fleiri nemendur hafa slæma reynslu af starfsmanni skóla getur verið gott að þeir fari í málið saman, t.d. með því að fara saman til skólastjóra eða aðstoðarskólastjóra til að ræða málið eða hafa samband við nemendafélagið.

Samkvæmt 12. gr. grunnskólalaga ber starfsfólki skólans að gæta kurteisi, nærgætni og lipurðar í framkomu sinni gagnvart nemendum.  Starfsmenn eiga þannig ávallt að koma fram við nemendur sína af virðingu og er aldrei ásættanlegt að hann geri lítið úr þeim.  

Sömuleiðis eiga nemendur að koma fram við starfsmenn skólans af virðingu. Samkvæmt 14. gr. grunnskólalaga ber nemendum að hlíta fyrirmælum  starfsfólks grunnskóla í öllu því sem skólann varðar, fara eftir skólareglum og fylgja almennum umgengnisreglum í samskiptum við starfsfólk og skólasystkin.  

Hafa unglingar rétt á því að velja sjálfir hvað þeir læra eða gera eftir grunnskóla eða mega foreldrar ráða hvað þeir gera?

Börn ráða því almennt sjálf hvað þau kjósa að gera eftir að skyldunámi lýkur þ.e. hvort þau sæki um nám í framhaldsskóla eða ekki. Almennt þá ráða þau líka hvaða framhaldsskóla þau kjósa en þó með þeim takmörkunum sem leiðir af staðsetningu skólans og kostnaði. Foreldrar ráða áfram búsetu barns á aldrinum 16 – 18 ára og geta börn á þeim aldri því ekki ákveðið að fara í framhaldsskóla sem er langt frá heimilinu nema með samþykki foreldra.

Foreldrum ber þó eftir sem áður að stuðla að því eftir mætti að barn þeirra fái menntun og starfsþjálfun í samræmi við hæfileika og áhuga, sbr. 4. mgr. 28. gr. barnalaga. Foreldrum ber því að leiðbeina börnum sínum þegar skyldunámi er lokið og aðstoða þau við að finna nám eða starf við hæfi.

Má hafa skyldumætingu í grunnskóla á laugardegi?

Nei, það er almennt ekki leyfilegt nema allir aðilar skólasamfélagsins hafi samþykkt það og það hafi verið sett í starfsáætlun skólans.

Menntamálaráðuneytið gaf út álit (20.4.2012) sem fjallar m.a. um þetta. Þar segir:

Ekki er heimilt að telja sem skóladaga samkomur á vegum skólans um helgar, t.d. vorhátíðir, íþróttahátíðir eða afmælishátíðir nema tryggt sé að allir starfsmenn skólans og nemendur taki þátt í skólastarfinu á umræddum dögum og að slíkt fyrirkomulag hafi verið samþykkt í starfsáætlun skólans. Ráðuneytið lítur svo á að ekki sé hægt að skylda nemendur til að mæta í skólann um helgar eða á helgidögum, en í undantekningartilvikum sé hægt að skipuleggja skólahald um helgar ef um það er sátt í skólasamfélaginu, t.d. vegna sérstakra aðstæðna.

Í kjölfar álitsins bárust ráðuneytinu athugasemdir og óskað var eftir því að ráðuneytið myndi endurskoða álitið. Það var gert 31.8.2012 en í þessum efnum stóð ráðuneytið við fyrra álit.

Sérstaklega hefur verið spurt um möguleika skóla til að skipuleggja árlega skólahald á laugardögum á skóladagatali í ljósi fyrra álits. Ráðuneytið stendur við fyrra álit hvað varðar skólahald á laugardögum, en telur engu að síður að í vissum tilvikum geti skólar skipulagt skólahald af einhverju sérstöku tagi um helgar, sé gætt að lögbundu samráði og að allir aðilar skólasamfélagsins séu samþykkir slíku fyrirkomulagi. Ráðuneytið telur hins vegar æskilegt að halda slíku í algjöru lágmarki, enda er gert ráð fyrir því að skólahald fari almennt fram á virkum dögum skólaársins.

Fleiri spurningar og svör um skólann í Spurt og svarað.

Ráðgjöf á netinu

Ef þig vantar ráðgjöf fagfólks vill umboðsmaður barna mæla með þessum síðum:

www.6h.is.  Smelltu hér ef þú vilt spyrja hjúkrunarfræðing um heilsu og líðan.

www.attavitinn.is. (Áttavitinn og Tótalráðgjöf). Smelltu hér ef þú ert orðin 16 ára og vilt spyrja ráðgjafa Tótalráðgjafarinnar um eitthvað.

Aðstoð í boði nálægt þér

Umboðsmaður barna vill sérstaklega benda á að börn og unglingar eiga alltaf að geta leitað til þessara aðila til að fá upplýsingar, ráðgjöf og aðstoð:

  • Grunnskólanemar geta leitað til umsjónarkennarans síns. Umsjónarkennarar eiga að aðstoða nemendur við að leysa úr persónulegum málum sem og námslegum. Þeir geta líka vísað nemendum á fagfólk innan skólans, eins og t.d. skólahjúkrunarfræðinginn eða námsráðgjafann. Nemendur geta að sjálfsögðu líka leitað sjálfir til hjúkrunarfræðingsins eða námsráðgjafans. Sumir skólar eru líka með skólafélagsráðgjafa.
  • Starfsfólk félagsmiðstöðvanna er bundið trúnaði og mörgum finnst mjög gott að ræða málið við það. 
  • Framhaldsskólanemar geta leitað til námsráðgjafans í skólanum sínum. Einnig hafa flestir framhaldsskólanemar umsjónarkennara sem þeir geta leitað til. 
  • Margir leita til presta til að ræða persónuleg mál — enda eru prestar bundnir trúnaði. Jafnvel þótt þú þekkir prestinn „þinn” ekki neitt getur þú alltaf leitað í kirkjuna.
  • Krakkar geta leitað til heilsugæslustöðvanna með alls konar spurningar og vandamál sem tengjast heilsu og líðan. Hérna á vef landlæknis er hægt að leita að heilsugæslustöðvum um allt land. 
  • Mörg sveitarfélög bjóða íbúum sínum upp á fjölskylduráðgjöf. Þangað geta börn leitað til að ræða og fá lausn á vandamálum sínum. Hér er listi yfir öll sveitarfélög landsins. Með því að smella á sveitarfélagið þitt kemst þú inn á heimasíðu þess. Hafðu samband við sveitarfélagið þitt til að fá upplýsingar um fjölskylduþjónustuna. 
  • 1717 er hjálparsími Rauða krossins. Hann er opinn allan sólarhringinn og það kostar ekkert að hringja í hann. Ef þér líður illa eða finnst lífið vera tilgangslaust skaltu ekki hika við að hringja í hjálparsímann.

Vantar svör?

Vantar þig svör? Sendu þá fyrirspurn eða skoðaðu spurningar og svör um skólamál hér.

Hér á barna- og unglingasíðunni eru frekari upplýsingar um skólamál, svo sem ábyrgð, réttindi, skyldur og skólareglur.

Miklu ítarlegri upplýsingar og tenglar á lög og reglur um leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla er að finna á aðalsíðu umboðsmanns barna.


Öllum er heimilt að nota efni af vef umboðsmanns barna svo framarlega að vísað sé í heimild.
Ábendingar um efni sem á heima á þessari síðu eru vel þegnar. Vinsamlegast sendið tillögur til vefstjóra.