English Danish Russian Thai Polish

Hver eru réttindi barna?

Teiknimynd af krökkum tala í hljóðnema

Réttindi barna

Þegar talað er um réttindi barna er verið að meina allt það sem börn þurfa að hafa til að geta lifað, þroskast og liðið vel.

Dæmi um réttindi eru: 

• að fá að ganga í skóla og fá þar þá aðstoð sem maður þarf,
• að búa á heimili með fjölskyldu sem hugsar vel um mann,
• að fá að þekkja og umgangast báða foreldra sína,
• að fá hollan mat, hreint vatn og föt sem henta veðri og aðstæðum,
• að fá að leika sér og hvíla sig,
• að hafa leyndarmál sín og einkamál í friði,
• að fá að segja það sem manni finnst um það sem skiptir mann máli,
• að njóta verndar gegn ofbeldi, hættulegum sjúkdómum og slysum.

Réttindi barna eru auðvitað miklu fleiri. Til að kynnast þeim er gott að skoða meira á þessum vef.

Sum réttindi eru afdráttarlaus. Það þýðir að þau gilda alltaf og alls staðar. Dæmi um slík ófrávíkjanleg réttindi eru réttur á vernd gegn ofbeldi. Það má aldrei beita börn ofbeldi, alveg sama hverjar aðstæðurnar eru. Flengingar eru líka ofbeldi.

Svo eru önnur réttindi barna sem hægt er að gera undantekningar á ef það er talið barni fyrir bestu. Börn eiga til dæmis rétt á að hitta og vera með báðum foreldrum sínum, nema ef umgengni geti verið skaðleg fyrir barnið.

Stundum geta réttindi barna vegist á við skyldur foreldra þeirra til að vernda þau. Það getur til dæmis átt við um rétt barna til friðhelgi einkalífs. Barn á að fá að vera í friði með einkamál sín og einkasamskipti (sms, skilaboð á Facebook, tölvupóst, bréf og þess háttar) við vini sína en ef foreldrarnir hafa áhyggjur af því að barnið sé í hættu (t.d. sé í vondum félagsskap eða byrjað að neyta fíkniefna) mega foreldrar skoða einkasamskipti barna sinna ef þeir telja að það geti hjálpað barninu.

Að lokum verður að hafa í huga að réttindi eins barns eru ekki mikilvægari en réttindi annars barns. Réttindi þín takmarkast því af réttindum annarra. Sem dæmi um þetta má nefna að þó að öll börn eigi rétt á að tjá sig mega þau ekki meiða aðra með orðum sínum. 

Teiknimynd af börn í leik

Bann við mismunun

Öll börn á aldrinum 0-18 ára eiga að njóta sjálfstæðra réttinda án mismununar.

Það á til dæmis ekki að skipta neinu máli:

• hvaða kynþætti þau tilheyra eða hvernig þau eru á litinn,
• hvort þau eru strákur eða stelpa,
• hvaða tungumál þau tala,
• hvaða trúarbrögð þau aðhyllast eða hvort þau eru trúlaus,
• hvaða skoðanir þau hafa,
• hvort þau eru heilbrigð, veik eða fötluð,
• hvort þau eru fátæk eða rík,
• hverjir foreldrar þeirra eru eða hvað þau hafa gert eða sagt,
• hvort þau eiga marga vini eða fáa,
• hvort þeim gengur vel í skóla eða frístundastarfi eða
• hver kynvitund þeirra er eða hvort þau eru gagnkynhneigð, samkynhneigð eða tvíkynhneigð.

Þó að það sé almennt bannað að mismuna börnum og öll börn eigi sömu réttindi þýðir það ekki endilega að öll börn eigi að fá það sama. Sum börn geta þurft meiri aðstoð eða þjónustu til þess að geta notið réttinda sinna.

Til dæmis þurfa sum börn meiri stuðning í skólanum en önnur börn. svo sem ef þau eru fötluð eða eiga erfitt með að læra af öðrum ástæðum.

Teiknimynd af vinum

Réttindi og ábyrgð

Reglur um réttindi barna er að finna í Barnasáttmálanum og ýmsum öðrum íslenskum lögum.

Börn eiga að fara eftir lögum og reglum samfélagsins eins og allir aðrir. Boð og bönn laganna hafa tilgang. Þau eru sett til að skapa betra og öruggara samfélag fyrir okkur öll.

Sem dæmi um lög má nefna umferðarlög, almenn hegningarlög, barnalög, barnaverndarlög og lögræðislög. Sérstök lög gilda líka um leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Svo hafa verið settar ýmsar reglugerðir um þessi skólastig.

Börn hafa því ekki bara réttindi heldur líka ákveðna ábyrgð og skyldur. Nýfædd börn hafa margs konar réttindi en engar skyldur en eftir því sem börn eldast og þroskast þurfa þau að bera meiri ábyrgð.

Sem dæmi um skyldur sem börn bera má nefna að þau eiga að fara eftir skólareglum í skólanum sínum. Einnig eiga þau að fara eftir umferðarlögum, t.d. reglum um notkun hjálma. Á unglingsaldri verður ábyrgð þeirra meiri. Til dæmis verða börn sakhæf 15 ára.

Þó að það sé mikilvægt að börn fari eftir þeim lögum og reglum sem gilda í samfélaginu er mikilvægt að muna að börn missa aldrei réttindi sín, jafnvel þó þau geri mistök og brjóti af sér.

Réttindi og forréttindi

Umboðsmanni finnst mikilvægt að börn læri að greina milli réttinda sinna og þeirra forréttinda sem þau njóta. Forréttindi eru eitthvað sem er gott og skemmtilegt að fá, en er ekki nauðsynlegt til að geta lifað, þroskast og liðið vel.

Það eru til dæmis réttindi barna að fá nægan og hollan mat að borða, á meðan það eru forréttindi að fá alltaf þann mat sem mann langar mest í eða eftirrétt. Sem dæmi um önnur forréttindi má nefna nýjasta tölvubúnaðinn, göt í eyrun, nammi, gos og tískufatnað.