English Danish Russian Thai Polish

Hvenær má ég hvað?

Teiknimynd fugl að tala

Almenn réttindi 0-18 ára

Þú ert barn þar til þú hefur náð 18 ára aldri. Börn eru ólögráða. Í því felst að:

 • Foreldrar og aðrir sem koma að uppeldi þínu og umönnun skulu sýna þér virðingu og umhyggju.
 • Foreldrar þínir eiga að taka mikilvægar ákvarðanir fyrir þína hönd. Foreldrar þínir eiga samt að hlusta á skoðanir þínar og taka tillit til þeirra áður en þeir taka ákvarðanir um mál sem skipta þig máli. Eftir því sem þú eldist eiga skoðanir þínar að hafa meiri áhrif.
 • Þú átt rétt á að þekkja báða foreldra þína og umgangast þá báða, jafnvel þótt þeir búi ekki saman.
 • Foreldrum þínum ber skylda til að vernda þig gegn andlegu og líkamlegu ofbeldi og annarri vanvirðandi háttsemi. Foreldrar mega ekki beita börn sín ofbeldi.
 • Foreldrar þínir eiga að sjá þér fyrir húsnæði, fötum, mat, skólavörum og öðru sem er nauðsynlegt fyrir þig. Ef foreldrar þínir búa ekki saman á það foreldri sem þú býrð ekki hjá að borga meðlag sem á að nota fyrir þig.
 • Þú ræður hvernig þú eyðir peningum sem þú hefur sjálf/ur unnið þér fyrir eða fengið að gjöf. Þetta gildir þó ekki ef um mikla peninga er að ræða. Foreldrar þurfa að leiðbeina börnum sínum um fjármál og grípa inn í ef barn fer illa með peninga sína.
 • Þú mátt ekki stofna til skulda.
 • Þú getur leitað til barnaverndar ef þér líður illa heima hjá þér, átt í erfiðleikum eða hefur orðið fyrir ofbeldi.
 • Þú átt rétt á þeirri aðstoð sem þú þarft , t.d. ef þú ert veik/ur, með fötlun eða ert með aðrar sérþarfir.
 • Þú átt rétt á heilsuvernd til verndar andlegu og líkamlegu heilbrigði þínu.
 • Þú mátt ekki láta gera á þig húðflúr eða gata líkamann án leyfis foreldra.

Börn eiga rétt á því að láta skoðanir sínar í ljós í öllum málum sem skipta þau máli eða hafa áhrif á líf þeirra. Þeir fullorðnu eiga að taka réttmætt tillit til skoðana þeirra í samræmi við aldur og þroska. Þetta á við bæði um persónuleg mál og samfélagsleg mál.

 • Börn eiga rétt á að tjá sig um hver fer með forsjá þeirra, hvar þau eiga heima og hvernig og hversu oft þau hitta það foreldri sem þau búa ekki hjá.
 • Nemendafélög skóla og skólaráð eru mikilvægur vettvangur fyrir börn til að koma skoðunum sínum á skólastarfinu og hagsmunamálum sínum á framfæri.
 • Í mörgum sveitarfélögum hafa verið stofnuð sérstök ungmennaráð sem geta haft áhrif í sveitarfélaginu. Svo eru sum sveitarfélög með vettvang eins og www.betrireykjavik.is og betrihafnarfjordur.is sem börn og unglingar geta nýtt sér eins til að koma hagsmunamálum sínum á framfæri.

Um aldursmörk

Teiknimynd vinir á gólfi

Eftir því sem börn eldast mega þau hafa meiri áhrif á eigið líf en auk þess eykst ábyrgð þeirra.

6 ára

 • Börn, 12 ára og yngri, mega ekki vera á almannafæri eftir klukkan 20;00 nema í fylgd með fullorðnum. Á tímabilinu 1. maí til 1. september lengist útivistartíminn um tvær klukkustundir.
 • Barn á rétt á og er skylt til að sækja skóla frá 6 ára aldri að jafnaði.
 • Barn sem hefur verið ættleitt á rétt á að fá að vita um ættleiðinguna fyrir 6 ára aldur eða fyrr ef það hefur þroska til.

10 ára

 • 1. júní á því ári sem barn verður 10 ára má það fara eitt í sund. Það er þó á ábyrgð foreldra að senda ekki barn sem ekki kann að synda eitt í sundlaug.

12 ára

 • Barn sem er orðið 12 ára þarf að samþykkja að einhver ættleiði það.
 • Barn sem er orðið 12 ára þarf  sjálft að samþykkja breytingu á nafni.
 • 12 ára barn á rétt á því að vera með í ráðum um þá læknismeðferð sem læknir vill veita því. Börn eiga alltaf rétt á að tjá sig um öll mál sem þau varða og alltaf á að hlusta á skoðanir yngri barna.
 • 12 ára barn á alltaf rétt á því að segja skoðun sína á því hvort það vill vera áfram í trúfélagi með foreldrum eða skipta um trúfélag. Þó á alltaf að hlusta á skoðanir yngri barna.

13 ára

 • Unglingar á aldrinum 13 til 16 ára skulu ekki vera á almannafæri eftir klukkan 22, enda séu þau ekki á heimferð frá viðurkenndri skóla-, íþrótta- eða æskulýðssamkomu. Á tímabilinu 1. maí til 1. september lengist útivistartíminn um tvær klukkustundir.
 • Unglingar 13–14 ára mega vinna létt störf í allt að 2 klst. á dag á starfstíma skóla en 7 klst. á dag utan starfstíma skóla. Þeir mega ekki vinna á milli kl. 20 til kl. 06 á morgnana og eiga rétt á a.m.k. 14 klst. hvíld á sólarhring.

15 ára

 • Þegar unglingur er orðinn 15 ára fær hann aukin réttindi í umferðinni. Hann má reiða barn sem er yngra en sjö ára ef hann er vanur hjólreiðamaður og sérstakt sæti er fyrir barnið á hjólinu. Annars er alltaf bannað að reiða farþega á hjóli. Hann má taka próf á létt bifhjól (skellinöðru). 15 ára unglingur sem er fatlaður getur fengið ökuskírteini til að mega stjórna hægfara vélknúnum ökutækjum fyrir fatlaða.
 • 15–17 ára unglingar mega vinna létt störf í allt að 2 klst. á dag ef þeir eru í skyldunámi en 8 klst. á dag utan ef þeir eru ekki í skyldunámi. Þeir mega ekki vinna á milli kl. 22 á kvöldin til kl. 6 á morgnana. Þeir eiga rétt á a.m.k. 14 klst. hvíld á sólarhring ef þeir eru í skyldunámi en 12 klst. á sólarhring ef þeir eru ekki í skyldunámi.
 • 15 ára unglinga má ráða til að gæta barna, samkvæmt túlkun Vinnueftirlitsins.
 • Þegar unglingur nær 15 ára aldri verður hann sjálfstæður aðili barnaverndarmáls og þarf sjálfur að samþykkja ýmsar ákvarðanir.
 • Unglingar verða sakhæfir 15 ára gamlir. Það þýðir að það má refsa þeim ef þeir fremja afbrot. Það má handtaka þá og úrskurða í gæsluvarðhald en þá þarf að tilkynna barnaverndarnefnd og foreldrum um það vegna þess að sérreglur gilda um unglinga til 18 ára aldurs.
 • Samkvæmt almennum hegningarlögum er refsivert að stunda kynlíf með einstaklingi sem er yngri en 15 ára. Þessari reglu er ekki ætlað að refsa fyrir kynlíf jafningja heldur fyrst og fremst að vernda börn og unglinga fyrir misnotkun þeirra sem eru eldri og vilja nýta sér þroska- og reynsluleysi barnanna.

16 ára

 • Skólaskyldu lýkur að jafnaði við 16 ára aldur. Þeir sem hafa lokið grunnskólanámi eiga rétt á að hefja nám í framhaldsskóla. Þeir ráða því sjálfir hvort þeir sækja um framhaldsskóla, fara að vinna eða gera eitthvað annað.
 • Sá sem er orðinn 16 ára getur hafið ökunám (æfingaakstur) og tekið próf á dráttarvél.
 • 16 ára unglingur getur ákveðið sjálfur hvort hann vill ganga í trúfélag eða segja sig úr því.
 • Við 16 ára aldur verða unglingar sjálfstæðir þjónustuþegar heilbrigðiskerfisins. Þeir geta því leitað til heilbrigðisstarfsfólks án samþykkis eða vitundar foreldra. Þeir eiga sjálfstæðan rétt á  upplýsingum um ástand, meðferð og horfur þeirra.
 • Í byrjun þess árs sem unglingur verður 16 ára fær hann sent skattkort frá ríkisskattstjóra þar sem honum ber að borga fullan skatt af launum sínum eins og fullorðnir. Einnig er honum skylt að greiða iðgjald af tekjum í lífeyrissjóð.
 • 16 ára unglingar getur átt rétt getur átt rétt á slysabótum úr almannatryggingakerfinu ef hann slasast við íþróttaiðkun.
 • Reglur laga um útivistartíma gilda ekki um unglinga sem eru 16 ára á árinu. Unglingum ber þó að fara eftir þeim reglum sem foreldrar setja.

17 ára

 • Sá sem orðinn er 17 ára getur tekið bílpróf eða próf á bifhjól. Sá sem hefur slíkt próf má aka torfærutækjum, svo sem vélsleðum, þríhjólum eða fjórhjólum.
 • 17 ára unglingur má stunda áhugaköfun að uppfylltum skilyrðum um menntun, heilbrigði og hæfni.

18 ára

Sá sem er orðinn 18 ára er lögráða, þ.e. sjálfráða og fjárráða.

 • Hann ræður því hvar hann býr og hvað hann tekur sér fyrir hendur.
 • Hann ræður því hvernig hann ráðstafar eignum sínum og peningum og ber ábyrgð á skuldum sínum.
 • Hann má ganga í hjónaband eða skrá sig í sambúð.
 • Hann hefur kosningarétt og má bjóða sig fram til Alþingis og sveitarstjórna.
 • Framfærsluskyldu foreldra lýkur almennt við 18 ára aldurinn. Þó er heimilt að úrskurða foreldri til að greiða barni sínu framlag til menntunar eða starfsþjálfunar samkvæmt kröfu þess frá 18 ára aldri og allt til þess er það nær 20 ára aldri.

Sá sem er orðinn 18 ára er fullorðinn. Það er þó ennþá ýmislegt sem 18 ára ungmenni má ekki gera:

 • Ekki má kaupa áfengi eða neyta þess fyrr en við 20 ára aldur.
 • Ekki má nota eða eiga skotvopn fyrr en við 20 ára aldur.

Svo eru nokkur sérákvæði, t.d. um ættleiðingar, skipan dómara og forseta sem gera kröfur um hærri aldur.