English Danish Russian Thai Polish

Fjölskyldumál

Teiknimynd foreldrar með barnavagn

Forsjá

Þar til börn verða 18 ára er einhver annar eða aðrir sem fara með forsjá þeirra. Sá sem fer með forsjá barns ber ábyrgð á barninu og á því yfirleitt lokaorðið þegar taka þarf stórar ákvarðanir fyrir barnið. Oftast fara foreldrar með forsjá barna sinna. Yfirleitt fara mamman og pabbinn sameiginlega með forsjá eða annað hvort fer eitt með forsjá. Stjúpforeldrar og aðrir geta líka farið með forsjá barns. 

Í barnalögum eru reglur um ábyrgð, réttindi og skyldur foreldra eða annarra sem fara með forsjá barna:

  • Foreldrar eiga að sýna börnum sínum virðingu og umhyggju.
  • Forsjárforeldrar eiga að taka mikilvægar ákvarðanir fyrir hönd barns. Foreldrar eiga samt að hlusta á skoðanir barna sinna og taka tillit til þeirra áður en þeir taka ákvarðanir um mál sem skipta máli. Eftir því sem börn eldast eiga skoðanir þeirra að hafa meiri áhrif.
  • Börn eiga rétt á að þekkja báða foreldra sína og umgangast þá báða, jafnvel þótt þeir búi ekki saman.
  • Foreldrum ber skylda til að vernda börn sín gegn andlegu og líkamlegu ofbeldi og annarri vanvirðandi háttsemi. Foreldrar mega ekki beita börn sín ofbeldi.
  • Foreldrar eiga að sjá börnum sínum fyrir húsnæði, fötum, mat, skólavörum og öðru sem er nauðsynlegt fyrir börnin. Ef foreldrar búa ekki saman á það foreldri sem barn býr ekki hjá að borga meðlag sem á að nota fyrir barnið.

Forsjárlausir foreldrar bera mikla ábyrgð á börnum sínum þó að þeir geti ekki tekið mikilvægar ákvarðanir fyrir þau. Aðrir sem koma að uppeldi barna verða að sjálfsögðu að virða réttindi þeirra og sýna þeim virðingu og umhyggju.

Ef börnum líður illa heima hjá sér, eiga í erfiðleikum eða hafa orðið fyrir ofbeldi geta þau leitað til barnaverndar.

Umgengni

Barn á rétt á að vera með því foreldri sem það býr ekki hjá, bæði reglulega og á hátíðum og í sumarleyfum. Það er líka bæði réttur og skylda þess foreldris sem barn býr ekki hjá að rækta samband sitt við barnið. 

Það er mjög misjafnt hvernig umgengni er háttað þar sem aðstæður barna eru mjög mismunandi. Sum börn fara í umgengni aðra hvora helgi en önnur skipta alveg um heimili aðra hvora viku. Svo eru sumir sem fara í umgengni aðra hvora helgi og svo einhverja vikudaga til viðbótar. Þetta verður alltaf að meta út frá því hve vel barnið tekur breytingum, aldri þess og þroska. Sum börn eru fljót að aðlagast og líður vel með að skipta reglulega um heimili. Öðrum finnst erfiðara að skipta um aðstæður og hentar betur eiga eitt aðal-heimili og annað auka-heimili. Annað sem skiptir miklu máli eru samskipti foreldra, þ.e. hvernig foreldrum gengur að vinna saman. Svo skiptir vegalengd á milli heimilanna líka máli. Þar sem aðstæður breytast oft og börn eldast og þroskast er mikilvægt að umgengni sé endurskoðuð reglulega.

Það eru foreldrarnir sem eiga að ræða málin og ákveða hvað er best fyrir barnið þeirra eftir að hafa talað við barnið. Ef foreldrarnir eru ekki sammála þá getur sýslumaðurinn hjálpað þeim að ákveða hvernig fyrirkomulagið eigi að vera. Barnið sjálft á rétt á að segja hvað því finnst og foreldrar og aðrir eiga að taka aukið mið af vilja barnsins eftir því sem það þroskast og hefur sterkari skoðun á málinu. Barnið á samt ekki að standa í því að miðla málum og reyna að sætta báða foreldra.

Meðlag

Samkvæmt barnalögum ber báðum foreldrum barns (þó að annað þeirra fari með forsjá þess) skylda til þess að framfæra það. Foreldrar eiga því að sjá börnum sínum fyrir húsnæði, fötum, mat, skólavörum og öðru sem er nauðsynlegt fyrir börnin. Ef foreldrar búa ekki saman á það foreldri sem barn býr ekki hjá að borga meðlag sem á að nota fyrir barnið.

Meðlag er sem sagt ákveðin fjárhæð sem foreldrið sem barnið á lögheimili hjá fær frá hinu foreldrinu. Það er mismunandi hversu hátt meðlag er en það fer eftir aðstæðum hverju sinni. Það er hlutverk foreldra að semja um meðlag. Ef það gengur illa að semja um meðlagið þá getur sýslumaður úrskurðað um það. Það er alls ekki hlutverk barnanna að taka að sér þessa ábyrgð foreldra.

Teiknimynd foreldrar og börn að borða

Ábyrgð, réttindi og skyldur foreldra

Foreldrar bera ábyrgð á velferð barna sinna og eru því yfirleitt mikilvægustu manneskjurnar í lífi barnanna. Foreldrum ber að vernda börn sín og gæta þess að allar ákvarðanir sem þeir taka fyrir hönd barna sinna séu í samræmi við það sem er viðkomandi barni fyrir bestu.

Þegar börn eru ung eru þau auðvitað algjörlega háð foreldrum sínum og foreldrar taka allar ákvarðanir fyrir þeirra hönd. Eftir því sem börn eldast og þroskast breytist hlutverk foreldra í þá átt að þeir verða meira leiðbeinandi og styðjandi frekar en ráðandi. Foreldrar eiga samt alltaf að sjá til þess að velferð barnanna sé tryggð og að börnin nái að þroska hæfileika sína og móta jákvæða sjálfsmynd.

Breytingar í fjölskyldunni

Undir liðnum Réttindi og ráðgjöf finnur þú upplýsingar um skilnað og sambúðarslit foreldra og ný sambönd foreldra.

Vantar svör?

Vantar þig svör? Sendu þá fyrirspurn hér.

Meiri upplýsingar um fjölskyldumál eru hér á aðalsíðu umboðsmanns barna