English Danish Russian Thai Polish

Barnasáttmálinn

Teiknimynd fígúra og heimurinn í sjó

Barnasáttmálinn í myndum

Ef þér finnst betra að skoða myndir en lesa texta getur þú smellt hér til að skoða hvaða réttindi Barnasáttmálinn hefur að geyma. Hér eru meiri upplýsingar um veggspjaldið Barnasáttmálinn í myndum.

Hvað stendur í Barnasáttmálanum?

Barnasáttmálinn er mikilvægur samningur um réttindi barna. Í honum eru reglur um það hvernig eigi að koma fram við börn og hvernig eigi að passa upp á að börn og unglingar njóti alls þess sem þau þurfa til að vera hraust, ánægð, ábyrg og upplýst.  Í sáttmálanum stendur að öll börnin í heiminum, frá 0-18 ára, eigi að njóta sömu réttinda.

Barnasáttmálanum er ætlað að tryggja öllum börnum og unglingum undir 18 ára aldri sérstök mannréttindi, óháð réttindum hinna fullorðnu. Samkvæmt Barnasáttmálanum eru börn sjálfstæðir einstaklingar með eigin réttindi en þau þurfa samt meiri vernd en þeir fullorðnu.

Hvað er best fyrir börnin?

Í Barnasáttmálanum stendur að það eigi alltaf að hugsa fyrst og fremst um það sem er börnunum fyrir bestu þegar fullorðna fólkið ákveður eitthvað sem skiptir miklu máli fyrir börnin.

Börn eiga að fá að segja hvað þeim finnst

Það sem er svo mikilvægt við Barnasáttmálann er að þar stendur að börnin eiga að fá að tjá skoðanir sínar. Fullorðna fólkið á að hlusta á börnin og taka eftir því sem þau vilja segja, eins og til dæmis hvar barnið á að búa ef foreldrar skilja eða hvar sé hentugast að leggja göngustíg eða setja leikvöll í hverfinu. Fullorðna fólkið getur nefnilega líka lært heilmikið af börnunum og þannig breytt hlutunum börnunum í hag.

Eftirlit

Til þess að fá löndin til að gera skyldur sínar samkvæmt samningnum hefur verið sett á stofn sérstök nefnd um réttindi barnsins í Genf í Sviss. Löndin sem hafa skrifað undir samninginn eiga að skila nefndinni skýrslu á nokkurra ára fresti um það sem þau hafa gert til að fylgja Barnasáttmálanum.

Hvað þýðir að Ísland hafi skrifað undir Barnasáttmálann?

Barnasáttmálinn heitir í rauninni Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Hann var samþykkur á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 20. nóvember 1989. Ísland og næstum því öll önnur lönd í heiminum hafa skrifað undir samninginn (Það eru 194 lönd samtals en Bandaríkin og Suður Súdan hafa ekki undirritað sáttmálann). Árið 2013 varð Barnasáttmalinn gerður að lögum á Íslandi.

Með því að samþykkja hann og gera að lögum hafa þeir sem stjórna landinu lofað að fara eftir reglunum í samningum. Það þýðir að það verður að tryggja börnunum réttindi, eins og til dæmis ókeypis skólagöngu, hollan mat, að mega leika sér, að geta farið til læknis, að geta verið bæði með mömmu og pabba, að fá sérstaka aðstoð ef þau eru fötluð eða veik og að fá vernd gegn ofbeldi og illri meðferð. Hér fyrir neðan er listi yfir helstu réttindi Barnasáttmálans.

Réttindi Barnasáttmálans

Ef þú ert á aldrinum 0-18 ára átt þú rétt á:

 • að það sem þér er fyrir bestu hafi alltaf forgang þegar teknar eru ákvarðanir sem varða þig (3. gr.),
 • að segja skoðun þína og að á þig sé hlustað í málum sem snerta þig (12. gr.),
 • hugsana-, tjáningar- og trúfrelsi (13. og 14. gr.).
 • að viðhalda því sem auðkennir þig sem einstakling, þ. á m. nafni, fjölskyldutengslum og ríkisfangi (8. gr.),
 • að verða ekki skilin/skilinn frá foreldrum þínum gegn vilja þeirra, nema það sé þér fyrir bestu (9. gr.),
 • að grunnþarfir þínar séu uppfylltar til að þú náir fullum þroska (27. gr.),
 • hvíld og tómstundum og að fá tækifæri til að stunda leiki og skemmtanir sem hæfa þínum aldri (31. gr.),
 • að á þig sé hlustað, borin sé virðing fyrir þér og tillit tekið til þín í málum, sem þig varða (10. og 40. gr.),
 • ókeypis grunnmenntun, sem beinist að því að rækta persónuleika, hæfileika og andlega og líkamlega getu þína (28. og 29. gr.),
 • friðhelgi einkalífs (16. gr.)
 • líkamlegum og sálrænum bata og aðlögun að samfélaginu á nýjan leik ef þú hefur orðið fyrir einhvers konar grimmilegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu (39. gr.),
 • að njóta sómasamlegs lífs til jafns við aðra, við aðstæður sem tryggja virðingu þína, stuðla að sjálfsbjörg og virkri þátttöku þinni í samfélaginu ef þú ert andlega eða líkamlega fatlaður/fötluð (23. gr.)
 • að meðferð þín og aðstæður séu undir reglubundnu eftirliti ef þú dvelst á stofnun eða sjúkrahúsi (25. gr.).
 • viðeigandi vernd og mannúðlegri aðstoð ef þú ert flóttamaður (22. gr.).
 • að njóta eigin menningar, iðka eigin trú og nota eigið tungumál í samfélagi með öðrum í hópnum ef þú tilheyrir minnihlutahópi (30. gr.).

Þú átt rétt á vernd gegn:

 • mismunun á grundvelli m.a. kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungumáls, trúarbragða, fötlunar eða ætternis (2. gr.),
 • hvers kyns meðferð sem á einhvern hátt getur verið skaðleg fyrir þig (32. og 36. gr.),
 • hvers kyns líkamlegu og andlegu ofbeldi, þar á meðal kynferðislegri misnotkun (19. gr.),
 • ólöglegri meðferð, notkun og sölu eiturlyfja (33. gr.),
 • skaðlegu efni í fjölmiðlum (17. gr.),
 • því að vera flutt/fluttur ólöglega úr landi og haldið í útlöndum (11. gr.).

Barnasáttmálinn er réttindasáttmáli. Eðli málsins samkvæmt fjallar hann aðeins um réttindi barna — ekki um skyldur þeirra. Öllum réttindum fylgja þó ábyrgð og skyldur. Um þær er t.d. fjallað í lögum, reglugerðum, skrifuðum og óskráðum reglum.

Meira efni

Smelltu hér til að skoða fræðslu- og leikjavefinn Barnasáttmáli.is. 

Smelltu hér til að skoða meira efni um Barnasáttmálann á aðalvef umboðsmanns barna.