Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Réttindi mín 8-13 ára

Þetta eru réttindi þín. Það eru sömu réttindi og annarra barna og unglinga í öllum heiminum.
Lestu, lærðu og ræddu um þau í skólanum, í félögum sem þú ert í og í vinahópnum.

Sáttmáli Sameinuðu þjóðanna um réttindi barna gildir fyrir börn og unglinga yngri en átján ára í öllum heiminum.

Fjölskyldan er mikilvæg fyrir þroska barnsins.  Foreldrar þínir bera meginábyrgð á velferð þinni og öryggi.

 

 

Ríkisstjórnin er ábyrg og á að gera allt  sem hún getur til að tryggja að réttindi barna séu virt á Íslandi.  Ríkisstjórn okkar á líka að stuðla að því að aðrar þjóðir virði barnasáttmálann.

Hvert einasta barn á rétt á nafni og ríkisfangi.

Börn eru öll jafn mikilsverð.   Það má ekki beita þig misrétti vegna útlits þíns, hörundslitar, kynferðis, tungumáls, trúar, skoðanna þinna o.fl.

Þeir sem taka ákvarðanir í málum sem varða börn eiga fyrst og fremst að hugsa um hvað er barninu fyrir bestu.

 

 

Börn eiga rétt á að segja hvað þeim finnst. Það á
að spyrja börnin um þeirra álit.   Það á að virða skoðun þína þegar ákvarðanir eru teknar í málum sem snerta þig, heima, í skólanum, hjá stjórnvöldum og dómstólum.

Öll börn eiga rétt á að ganga í skóla og fá að læra það sem er nauðsynlegt að kunna, til dæmis að virða mannréttindi og menningu annarra þjóða.   Það er mikilvægt að skólastarfið þroski og uppörvi börnin.

Börn sem verða veik eiga rétt á þeirri hjálp og hjúkrun sem þau þurfa.

Hvert einasta barn á rétt á mannsæmandi lífi.
Fötluð börn eiga rétt á sérstökum stuðningi og vernd.

Barn sem hefur neyðst til að flýja úr landi sínu á að njóta sömu réttinda og önnur börn í nýja landinu. Komi barnið einsamalt á það rétt á sérstakri aðstoð og vernd.   Og sé það mögulegt á að leita uppi fjölskyldu barnsins svo að það geti sameinast henni á ný.

 

 

Það á að virða skoðanir og trú hvers einstaks barns.  Börn sem tilheyra minnihlutahópum eiga rétt á að viðhalda móðurmáli sínu, menningu og trú.

Öll börn eiga rétt á að leika sér og að búa í góðu umhverfi.

Öll börn eiga rétt á upplýsingum frá hinum ýmsu heimshlutum í hljóðvarpi, sjónvarpi, dagblöðum og bókum.  Upplýsingarnar mega þó ekki vera skaðlegar börnum.   Börn eiga auðvitað líka rétt á að dreifa sínum eigin upplýsingum.

Sérhvert barn hefur rétt til þess að eiga leyndarmál sín í friði. Þess vegna má enginn lesa bréfin þín eða dagbækurnar þínar nema með þínu leyfi.

Öll börn eiga rétt á að vera með bæði mömmu sinni og pabba sínum, eins þó að þau búi ekki saman. Foreldrarnir bera sameiginlega ábyrgð á börnunum. Foreldrarnir eiga líka rétt á stuðningi og vernd.

 

 

Ekkert barn má sæta misþyrmingu, arðráni
eða vanrækslu.  Ekkert barn má neyða til heilsuspillandi vinnu.   Ekkert barn má beita
ofbeldi.  Ef þú sætir illri meðferð átt þú að fá vernd og hjálp.

Öll börn eiga rétt á að fá upplýsingar og vitneskju um réttindi sín.

Þetta eru Réttindi þín, bók um Samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barna. Þessi samningur er jafnan kallaður Barnasáttmálinn og á við um öll börn og alla unglinga undir átján ára aldri í heiminum öllum.

Barnasáttmálinn fjallar um öll þau réttindi sem börn og unglingar eiga.  Öll börn í heiminum eru jafnmikils virði og eiga sömu réttindi.

Sáttmáli er samkomulag milli ríkja. Með því að skrifa undir sáttmálann, fullgilda hann, lofa ríkin að fylgja þeim ákvörðunum sem sáttmálinn lýsir.  Hvert atriði sáttmálans er kallað grein.

Flest ríki heimsins hafa skrifað undir Barnasáttmálann.  Íslendingar fullgiltu hann 28. október árið 1992. Það þýðir að íslenska ríkisstjórnin hefur lofað að uppfyllt verði það sem stendur í sáttmálanum.

Barnasáttmálinn er í 54 greinum og við höfum valið nokkrar þeirra til að kynna fyrir þér hérna.   Það er mikilvægt að þú þekkir réttindi þín og að þú hjálpir til við að fræða öll börn um Barnasáttmálann svo að þau þekki réttindi sín.

Þegar þú ert búin(n) að lesa skaltu athuga hvernig málum er háttað í skólanum þínum, heima hjá þér og í bænum þínum eða sveitinni til þess að þú getir sjálf(ur) haft áhrif á þá sem stjórna.

 

© BARNkonventionsgruppen 1992 © Myndir: Andersson & Andersson Útlit: Andersson & Andersson, Gautaborg Myndir: Gert Andersson
© 1994 Íslensk þýðing: Vilborg Dagbjartsdóttir Ritstjórn íslensku útgáfunnar: Árný Elíasdóttir og Heimir Pálsson Öll réttindi áskilin
1. útgáfa 1994 2. prentun 1994
Námsgagnastofnun og Dóms- og kirkjumálaráðuneytið Umbrot og myndvinnsla: PRENTHÖNNUN HF
Prentun: Prentsmiðjan Oddi hf. Prentað á endurunninn og visthæfan pappír