21. desember 2010

Vinnusmiðja á Úlfljótsvatni

Dagana 16. og 17. desember 2010 hélt umboðsmaður barna vinnusmiðju fyrir unglinga á aldrinum 14-17 ára á Úlfljótsvatni. Þema vinnusmiðjunnar var vinátta, vinaleysi og samkennd.

3736086 Ulf 124Dagana 16. og 17. desember 2010 hélt umboðsmaður barna vinnusmiðju fyrir unglinga á aldrinum 14-17 ára á Úlfljótsvatni. Þema vinnusmiðjunnar var vinátta, vinaleysi og samkennd.

Eftir hópefli og stutta kynningu var krökkunum boðið að velja hvort  þeir vildu búa til sína eigin stafræna sögu um persónulega reynslu eða vinna í hóp að gerð myndbanda fyrir umboðsmann barna.

Þrír starfsmenn Reykjavíkurakademíunnar voru á staðnum til að leiðbeina þátttakendum í fyrri hópnum um gerð stafrænna sagna en við gerð slíkra sagna er mikilvægt að fylgja ákveðinni aðferðafræði. Leiðbeinendurnir fóru með þátttakendunum í gegn um allt ferlið frá hugmynd úr reynslubanka krakkanna í fullbúið handrit. Þessi vinna var mjög krefjandi en krakkarnir gáfu sig öll í vinnuna og lögðu sig fram við að búa til vandaða og persónulega stafræna sögu. Stefnt er að því að ljúka við gerð sagnanna með vinnudegi hjá Reykjavíkurakademíunni laugardaginn 15. janúar 2011. Upplýsingar um stafrænar sögur er meðal annars að finna á vefsíðunum digitalstorylab.com og storycenter.org.

3736083 Ulf 134Krakkarnir sem völdu sér myndbandagerð kusu að vinna sem einn hópur. Fyrst fór fram hugmyndavinna þar sem rætt var um ýmsar hliðar vináttu, vinaleysis, eineltis og samkenndar. Síðan voru búin til tvö myndbönd. Annað fjallar um einelti og hvernig er hægt að hjálpa öðrum. Hitt fjallar um það hvernig fyrirmyndir barna og unglinga hafa áhrif á viðhorf þeirra og fordóma. Hugmyndavinna og upptökur hófust að þriðja myndbandinu en ekki náðist að ljúka því. Starfsmenn embættisins stefna að því að fullvinna myndbandið í samráði við ráðgjafarhóp umboðsmanns.

Auk ofangreindrar vinnu var tíminn notaður til að fara í göngu, halda kvöldvöku, mynda ný vináttubönd og skemmta sér. Allir voru sammála um það að ferðin á Úlfljótsvatn var lærdómsrík, skemmtileg og mjög vel heppnuð í alla staði.

Starfsfólk umboðsmanns barna þakkar öllum kærlega fyrir þátttökuna, dugnaðinn og frábæra samveru.


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica