18. nóvember 2014

Ungmenni funda með ríkisstjórn

Fulltrúar úr ungmennaráðum Barnaheilla, UNICEF og umboðsmanns barna hittu í morgun ráðherra á fundi í Stjórnarráðinu. Fundurinnvar hluti af dagskrá í tilefni 25 ára afmæli Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem fagnað verður á fimmtudaginn nk.

Ungmenni Funda Með Ríkisstjórn 18 Nóv 2014 2Fátítt er að utanaðkomandi aðilar gangi á ríkisstjórnarfund en í morgun var brugðið út af þeirri venju þegar fulltrúar úr ungmennaráðum Barnaheilla, UNICEF og umboðsmanns barna hittu ráðherra á fundi í Stjórnarráðinu. Fundurinn í morgun var hluti af dagskrá í tilefni 25 ára afmæli Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem fagnað verður fimmtudaginn 20. nóvember næstkomandi.

Ein af grundvallarforsendum Barnasáttmálans, sem var lögfestur á Íslandi 20.febrúar 2013, er að í öllum málum er varða börn með einum eða öðrum hætti eigi þau rétt á að tjá sig og hafa áhrif.  Hér á landi er lítil hefð fyrir að börn og ungmenni taki þátt í ákvörðunum sem varða þau, þá sérstaklega innan stjórnsýslunnar. Í því felst ein stærsta áskorunin þegar kemur að innleiðingu Barnasáttmálans á Íslandi.

„Við erum sérfræðingar í að vera börn og erum þess vegna hæfust til að benda á hvað þarf að laga í málefnum sem tengjast okkur. Þess vegna á að hlusta á okkur, spyrja okkur og taka mark á því sem við segjum," sagði Lilja Hrund Ava Lúðvíksdóttir, 15 ára nemandi í Garðaskóla og fulltrúi ungmennaráðs UNICEF á fundinum.

  „Góður fundur og gagnlegur“

Ungmenni Funda Með Ríkisstjórn 18 Nóv 2014 1„Þetta var góður og gagnlegur fundur. Ég tel það mjög æskilegt að ráðherrar, alþingsmenn og þeir sem starfa við stjórnmál hittu börn oftar og ræddu við þau um hvernig þau sjá hlutina. Það er gagnlegt fyrir stjórnmálamenn, ekki síður en börnin. Fáir eru til dæmis betur til þess fallnir að meta starfsemi skólanna en þeir sem eru þar alla daga,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, að fundi loknum.

Á ríkisstjórnarfundinum greindu fulltrúar ungmennaráðanna ráðherrunum frá málefnum sem brenna á ungu fólki á Íslandi, s.s. geðheilbrigðismál og menntamál, ásamt því að ræða hvernig stuðla megi með markvissari hætti að því að uppfylla réttindi barna.

„Við erum mjög þakklát fyrir að fá þetta tækifæri til að ræða beint við ráðherrana og benda á að við höfum ekki vettvang til að hafa áhrif á það sem er í nærumhverfi okkar. Þetta var góður fundur, rólegur spjallfundur, en við gáfum mjög skýrar ábendingar sem ég held að þau hafi hlustað á,“ sagði Bjartur Thorlacius, 18 ára, að fundi loknum en hann er hluti af ráðgjafahóp umboðsmanns barna. 


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica