20. nóvember 2014

Þingmenn gerast talsmenn barna

Á afmælishátíð Barnasáttmálans skrifaði hópur þingmanna undir yfirlýsingu um að gerast talsmenn barna á Alþingi og hafa þannig réttindi og velferð barna að leiðarljósi við ákvarðanatöku og lagasetningu.

Afmælishátíð í tilefni 25 ára afmælis Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna fór fram í Laugalækjarskóla í morgun.

Dagurinn hófst á því að nemendur Laugalækjarskóla, ráðherrar, þingmenn og aðrir gestir borðuðu morgunhafragrautinn saman ásamt afmælisköku. Að því loknu bauð umboðsmaður barna, Margrét María Sigurðardóttir alla velkomna en fundarstjóri var Hólfmfríður Hafliðadóttir nemandi í Laugalækjarskóla. Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra ávarpaði hátíðina og lýsti afmælisár sáttmálans formlega hafið. Sérstök afmælisnefnd hefur undirbúið viðburði sem muna dreifast yfir árið. Þar má nefna gerð sjónvarpsmyndar, málþing og fleira.

,,Við vildum setja afmælisathöfnina inn í umhverfi barnanna, í anda Barnasáttmálans og leggja þannig áherslu á að samfélagið aðlagi sig börnum og þeirra umhverfi, en gerum ekki ráð fyrir að börnin séu sett í umhverfi hinna fullorðnu,” segir Þóra Jónsdóttir, verkefnastjóri Barnaheilla – Save the Children á Íslandi sem hefur ásamt UNICEF og umboðsmanni barna skipulagt afmælishátíð Barnasáttmálans.

Framkvæmdastjórar Barnaheilla, UNICEF á Íslandi, innanríkisráðherra og umboðsmaður barna fóru því næst fyrir fjöldasöng þar sem afmælissöngur Barnasáttmálans var sunginn við undirleik Illuga Gunnarssonar, mennta- og menningarmálaráðherra.

Sjá málin með augum barna

Á afmælishátíðinni undirritaði sérstakur hópur þingmanna yfirlýsingu um að gerast „Talsmenn barna á Alþingi“. Hópinn skipa þingmenn úr öllum flokkum sem hafa setið námskeið á vegum UNICEF, Barnaheilla og umboðsmanns barna um Barnasáttmálann og notkun hans sem hagnýts verkfæris við ákvarðanatöku og stefnumótun. Þingmannahópinn skipa þau Elín Hirst (D), Karl Garðarsson (B), Valgerður Bjarnadóttir (S), Páll Valur Björnsson (A), Birgitta Jónsdóttir (Þ) og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (V). Við undirritunina settu þingmennirnir upp sérstök „barnagleraugu“ til að muna eftir að líta á málin frá sjónarhorni barna.

Barnasáttmálinn 25 Ára

„Ég er stolt af því að tilheyra þessum hópi og mun framvegis setja upp barnagleraugun við úrvinnslu mála sem snerta börn og velferð þeirra,“ sagði Elín Hirst.

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata tók í sama streng og beindi orðum sínum til barnanna á staðnum. „Þegar við mótum lög munum við hafa það í huga að þau hafa áhrif á ykkur, öll lög hafa áhrif á ykkur.“

Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi sagði undirritunina afar gleðilegan áfanga.

„Börn eiga sér oft fáa málsvara. Því er einstaklega ánægjulegt að sáttmálanum sé gert hátt undir höfði á þessum degi og að þverpólitískur hópur þingmanna heiti börnum og réttindum þeirra stuðningi sem mun hafa áhrif um allt samfélagið,“ sagði Bergsteinn.


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica