31. desember 2010

Réttindi nemenda í framhaldsskóla - Bréf til menntamálaráðuneytisins

Umboðsmaður barna sendi í haust bréf til menntamálaráðuneytisins til að spyrja hvernig ráðuneytið hyggist tryggja framhaldsskólanemendum sama eða betri rétt til aðstoðar umsjónarkennara, sálfræðinga og félagsráðunauts og reglugerð nr. 105/1990 tryggir en hana stendur til að fella á brott. Í lok árs 2010 hafa ekki borist svör við bréfinu.

Umboðsmaður barna sendi í haust bréf til menntamálaráðuneytisins til að spyrja hvernig ráðuneytið hyggist tryggja framhaldsskólanemendum sama eða betri rétt til aðstoðar umsjónarkennara, sálfræðinga og félagsráðunauts og reglugerð nr. 105/1990 tryggir en hana stendur til að fella á brott. Í lok árs 2010 hafa ekki borist svör við bréfinu sem er svohljóðandi:

Mennta- og menningarmálaráðuneytið
Sölvhólsgötu 4
150 Reykjavík

Reykjavík, 13. september 2010
UB: 1009/6.3.0

Efni: Réttindi nemenda í framhaldsskóla

Í reglugerðasafni Stjórnarráðsins er að finna reglugerð um framhaldsskóla nr. 105/1990 sem hefur að geyma ýmis ákvæði um réttindi og ábyrgð nemenda og skólastjórnenda í framhaldsskólum.  Að miklu leyti hafa nýrri lög og reglugerðir komið í stað ákvæða hennar á meðan önnur ákvæði ættu að halda gildi sínu, svo fremi sem þau stangast ekki á við nýrri lög og reglugerðir. Þar sem þessi reglugerð hefur ekki verið felld brott ætti hún því að gilda um þau atriði sem nýrri lagaheimildir fjalla ekki um.

Umboðsmaður barna hefur áhyggjur af brottfalli nemenda úr framhaldsskólum og líðan þessa hóps sem á erfitt með að fóta sig innan framhaldsskólakerfisins. Ítarleg ákvæði um ábyrgð náms- og starfsráðgjafa eru mikilvæg til að þjónusta við þennan hóp sé vönduð og gagnleg og vonar umboðsmaður að ákvæði um náms- og starfsráðgjafa í nýrri reglugerð með heimild í 8. gr. núgildandi laga verði a.m.k. jafn ítarleg og 9. gr. reglugerðar nr. 1100/2007. Þó þarf stundum fleira að koma til en þjónusta náms- og starfsráðgjafa til að tryggja þeim nemendum sem þurfa aðstoð góða og faglega þjónustu þannig að þeim líði vel í skólanum,  geti náð árangri í náminu og tekið þátt í félagslífi skólans.

Umboðsmaður barna vill í þessu sambandi beina eftirfarandi spurningum til ráðuneytisins:

1.       Umboðsmanni barna hefur verið tjáð að til standi að fella reglugerð nr. 105/1990 úr gildi. Farið er fram á að upplýst verði hvort að svo sé eða ekki.

2.       Ef reglugerð nr. 105/1990 verður felld úr gildi vill umboðsmaður barna fá upplýsingar um á hvern hátt ráðuneytið ætli að tryggja nemendum sambærilegan rétt eða betri varðandi eftirfarandi atriði.
     a.        Þjónustu og aðstoð umsjónarkennara sbr. 29. gr. 
     c.        Þjónustu sálfræðinga sbr. 31. gr.
     d.       Aðstoð félagsráðunauts sbr. 34. gr.

3.       Ef reglugerð nr. 105/1990 verður ekki felld brott og heldur því gildi sínu, óskast upplýst hvernig ráðuneytið mun hátta eftirliti með ákvæðum hennar og hvernig hún verður kynnt stjórnendum framhaldsskólanna?

Umboðsmaður barna óskar eftir því að ráðuneytið veiti svör við ofangreindum spurningum svo fljótt sem auðið er.

Virðingarfyllst,

____________________________________________
Margrét María Sigurðardóttir,
umboðsmaður barna

 

 


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica