15. desember 2014

Nafnbreytingar og hagsmunir barna

Umboðsmaður barna hefur sent Þjóðskrá Íslands bréf þar sem hvetur stofnunina til þess að setja hagsmuni barna ávallt í forgang þegar tekin er afstaða til umsóknar um nafnbreytingu.

Fyrr á þessu ári sendi umboðsmaður barna Þjóðskrá Íslands bréf þar sem hann spurði nokkurra spurninga um nafnbreytingar og rétt barna til að tjá sig og hafa áhrif á slíkar ákvarðanir. Bréfið má lesa í heild sinni í frétt frá 16. september 2014.  Svar barst frá Þjóðskrá með bréfi, dags. 17. nóvember 2014.  

Ljóst er að nafn er mikilvægur hluti af sjálfsmynd barna. Er því sérstaklega mikilvægt að börn á öllum aldri fái tækifæri til þess að tjá sig áður en nafni þeirra er breytt og að tekið sé réttmætt tillit til skoðana þeirra í samræmi við aldur og þroska. Þá telur umboðsmaður barna mikilvægt að gera ekki of strangar kröfur til þess að hægt sé að breyta kenninafni í þeim tilvikum sem það er eindreginn vilji barns. Umboðsmaður hefur nú sent Þjóðskrá Íslands eftirfarandi bréf þar sem hann áréttar þessi sjónarmið og hvetur stofnunina til þess að setja hagsmuni barna ávallt í forgang. 

Þjóðskrá Íslands
Borgartúni 21
105 Reykjavík

Reykjavík, 10. desember 2014
UB:1412/16.0

 

Efni: Nafnbreytingar barna

Umboðsmaður barna þakkar Þjóðskrá Íslands fyrir bréf, dags. 17. nóvember sl., þar sem finna má svör við spurningum umboðsmanns barna um nafnbreytingar barna.

Sjónarmið barna undir 12 ára aldri

Í svari við fyrstu spurningu umboðsmanns barna, sem varðaði það hvernig tryggt er að börn undir 12 ára aldri fái að tjá sig um fyrirhugaðar nafnbreytingar, kemur fram að Þjóðskrá Íslands kanni ekki sjálfstætt afstöðu yngri barna til nafnbreytinga en taki tillit til sjónarmiða barna ef þau birtast í þeim gögnum sem foreldrar eða forsjáraðilar leggja fram. Umboðsmaður fagnar því að skoðanir barna hafi áhrif á mat Þjóðskrár í þeim tilvikum sem þær liggja fyrir. Hann telur hins vegar miður að Þjóðskrá skuli ekki hafa frumkvæði af því að óska eftir upplýsingum um afstöðu barna í þeim tilvikum sem foreldrar leggja ekki fram slík gögn, til dæmis með því að ræða við börnin. Hann hvetur Þjóðskrá til þess að endurskoða vinnulag sitt að þessu leyti og taka tillit til réttinda barna samkvæmt 12. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sbr. lög nr. 19/2013 og 3. mgr. 1. gr. barnalaga nr. 76/2003.

Breyting á kenninafni barna

Seinni spurning umboðsmanns barna varðaði túlkun á 6. mgr. 14. gr. laga um mannanöfn nr. 45/1996. Þjóðskrá bendir í svari sínu á að ströng skilyrði séu fyrir því að heimila að kenning til foreldris verði felld niður og kenning til hins foreldrisins tekin upp. Umboðsmaður tekur undir það sjónarmið að kenninöfn eigi ekki að vera vettvangur fyrir deilur foreldra. Hins vegar er brýnt að tekið sé tillit til þess hversu mikil áhrif kenninafn getur haft á sjálfsmynd barna og sjálfstæður réttur þeirra til þess að hafa stigvaxandi áhrif á eigið líf virtur.

Í lok bréfsins bendir Þjóðskrá á að það sé ekki hlutverk stofnunarinnar að leggja mat á eða taka afstöðu til þess hvort barn hafi orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi af hálfu foreldris þegar ekki liggur fyrir dómur eða önnun sönnun um sekt foreldris. Í þessu sambandi vill umboðsmaður barna benda á að það er hlutverk Þjóðskrár að taka afstöðu til þess hvort breyting á kenninafni sé barni til verulegs hagræðis og við það mat getur stofnunin þurft að taka afstöðu til ýmissa atriða, þar á meðal þess hvort foreldri hafi beitt barn ofbeldi eða annars konar illri meðferð. Ekki er rétt að leggja einungis til grundvallar hvort foreldri hafi verið dæmt fyrir ofbeldi gegn barninu eða hvort sekt sé að öðru leyti hafin yfir allan vafa. Ljóst er að í sakamálum er allur vafi metinn sökunaut í hag og þarf því mikið að koma til svo að hægt sé að sakfella í slíkum málum. Í öðrum málum er hins vegar talið nóg að leiddar séu fullnægjandi líkur á því að ofbeldi hafi átt sér stað. Þá þarf að huga sérstaklega að hagsmunum barna við matið, enda á það sem er börnum fyrir bestu að hafa forgang við allar ákvarðanir sem varða börn, sbr. 3. gr. Barnasáttmálans og 2. mgr. 1. gr. barnalaga. Er því að mati umboðsmanns barna rétt að meta allan vafa börnum í hag þegar tekin er afstaða til þess hvort nafnbreyting geti talist barni til verulegs hagræðis. Ef barn segir sjálft frá ofbeldi með skýrum hætti ætti slíkt almennt að duga til, enda hafa rannsóknir sýnt að rangar ásakanir barna um ofbeldi séu sjaldgæfar. Á það ekki síst við þegar um stálpuð börn er að ræða, enda eiga þau sjálf að ráða mestu um persónuleg málefni sín. Umboðsmaður barna hvetur Þjóðskrá til þess að setja hagsmuni barna í forgang og forðast að gera of ríkar sönnunarkröfur þegar metið er hvort breyting á kenninafni teljist barni til verulegs hagræðis.  

Virðingarfyllst,

Margrét María Sigurðardóttir,
umboðsmaður barna 


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica